kids-fast-food-tv-advertisment

Matarauglýsingar leynast víða, ekki bara í auglýsingatímanum heldur eru einnig leyndar auglýsingar í mörgum vinsælum sjónvarpsþáttum. Til dæmis hafa þeir sem fylgjast með The Big Bang Theory væntanlega tekið eftir því að þau kaupa oft tilbúinn mat. Meðan þau borða matinn myndar áhorfandinn jákvæðar tilfinningar til þessa tiltekna vörumerkis. Nýlega var birt rannsókn þar sem skoðað var hvað gerist í heilanum á unglingum þegar þau horfa á slíkar auglýsingar.

Ungmennunum var skipt uppí hópa eftir því hvort þau glímdu við offitu eða ekki. Mælingar á virkni í heila þeirra með segulskoðun (MRI) sýndi svo hvaða svæði örvuðust og hversu mikið þau örvuðust meðan þáttur í The Big Bang Theory var spilaður. Með þessu móti vissu þáttakendurnir ekki hvað var verið að prófa, en gera má ráð fyrir að sambærileg viðbrögð fengjust ef spiluð væri hefðbundin auglýsing fyrir skyndibita.

Meðan auglýsing tengd mat var í gangi örvuðust svæði í heilum ungmennanna sem eru tengd athygli og einbeitingu sem og verðlaunatengd svæði. Síðastnefndu svæðin urðu marktækt virkari í ungmennum sem teljast glíma við offitu en þeim sem voru í kjörþyngd. Það sem kom vísindahópunum helst á óvart var að svæði sem stjórnar meðal annars munninum örvaðist í ungmennum sem glíma við offitu.

Þessar rannsóknir sýna að bara við það að horfa á mat, eins og í auglýsingum, þá örvast svæðin í heilanum sem verðlauna okkur. Verðlaunasvæðin eru sérstaklega virk í ungmennum sem glíma við offitu en það gæti einmitt verið hluti af skýringunni. Þau seita meira af gleðiefnum, eins og dópamíni, þegar þau horfa á matarauglýsingu og tengja því mat við jákvæða upplifun, sérstaklega skyndibita vegna þess að þeir eru mikið auglýstir.

Börn og ungmenni horfa á ógrynni af auglýsingum á dag, flestar ómeðvitaðar. Með þessar niðurstöður að leiðarljósi er ekki úr vegi að endurskoða hvað og hvenær er æskilegt að augýsa til dæmis í þáttum sem eru skrifaðir fyrir unglinga.