herbalsupplements

Eins og fram kom í Kastljósi á mánudaginn síðastliðinn var innihald ýmissa náttúrulyfja í New York fylki Bandaríkjanna kannað nýlega. Í ljós kom að í mörgum tilfellum greindist ekkert af virka efninu í vörunum. Í sumum tilfellum innihéldu vörurnar einnig innihaldsefni sem ekki voru skráð í innihaldslýsingu.

Rannsóknin var gerð á vegum dómsmálaráðherra New York fylkis og voru vörur frá Wal-Mart, Walgreens, Target og GNC prófaðar. Notast var við tækni sem kallast DNA strikamerking (DNA barcoding) til þess að kanna innihald sex mismunandi náttúrulyfja sem seld eru í keðjunum fjórum og var sérfræðingur í tækninni ráðinn til þess að framkvæma rannsóknina.

DNA strikamerki eru stuttar DNA raðir (basaraðir) sem eru samsvarandi sértækum DNA röðum í tilteknum lífverum. Hvert strikamerki er hannað þannig að það binst aðeins DNA-röðum úr einni lífveru, þar af leiðandi þarf að smíða DNA raðir (strikamerki) fyrir hverja einustu lífveru og þaðan er nafngiftin komin. Með þessari tækni er hægt að gera nákvæmar tegundagreiningar. Þrjú til fjögur sýni voru tekin úr öllum sex náttúrulyfjunum sem prófuð voru og hvert sýni var prófað með fimm aðgreindum DNA strikamerkjum. Allt í allt voru 390 próf með 78 sýnum framvkæmd.

Aðeins 21% af þeim vörum sem prófaðar voru innihéldu DNA strikamerki frá jurtum sem nefndar voru í innihaldslýsingu. Það sem meira er þá greindust í 35% sýnanna DNA strikamerki úr plöntum sem ekki voru nefndar í innihaldslýsingu, t.d. hrísgrjónum, aspas og villtum gulrótum. Mörg sýnanna innhéldu ekkert DNA frá jurtaríkinu.

Hér fyrir neðan má sjá niðurstöður hverrar verslunarkeðju fyrir sig:

GNC
Sex „Herbal Plus“ náttúrulyf voru prófuð: ginko biloba, jóhannesajurt, gingseng, hvítlaukstöflur, sólhattur og freyspálmi. Af þessum sýnum voru það aðeins hvítlaukstöflurnar sem voru með rétta innihaldslýsingu. Eitt glas af freyspálmatöflum innihélt DNA úr freyspálma. Engin af hinum vörum innihélt virka efnið.

Target
Sex „Up & Up“ náttúrulyf voru prófuð: gingko biloba, jóhannesarjurt, garðabrúðurót, hvítlaukstöflur, sólhattur og freyspálmi. Þrjár af vörunum innhéldu virka efnið: sólhattur, hvítlaukstöflur og freyspálmi. Hin þrjú náttúrulyfjanna innihéldu ekkert af virka efninu.

Walgreens
Sex „Finest Nutrition“ náttúrulyf voru prófuð: gingko biloba, jóhannesajurt, ginseng, hvítlaukstöflur, sólhattur og freyspálmi. Aðeins greindist virka efnið í einni vöru: freyspálma. Hvítlaukur greindist í einu hvítlaukstöflu sýni en ekkert af virka efninu greindist í öðrum sýnum.

Walmart
Sex „Spring Valley“ náttúrulyf voru prófuð: gingko biloba, jóhannesajurt, ginseng, hvítlaukstöflur, sólhattur og freyspálmi. Hvítlaukur greindist réttilega í einu sýni, en í mjög litlu magni. Það sama gilti um freyspálma. Ekkert virkt efni greindist í hinum sýnunum.

Þessar niðurstöður vekja upp spurningar varðandi öryggi neytenda en vanmerkingar á vörum geta haft alvarlegar afleiðinga fyrir neytendur með ofnæmi eða óþol og neytendur sem sem taka inn lyf sem hafa mögulega gagnverkun við innihaldsefnin.

Áhugavert væri að sjá hvernig sambærileg rannsókn myndi koma út á Íslandi.

Hægt er að lesa yfirlýsingu dómsmálaráðherra í heild sinni hér.