Two babies playing with two laptop computers

Um helmingur mæðra og þriðjungur feðra deila upplýsingum um börnin sín á samfélagsmiðlunum. Tilgangurinn er misjafn, fá ráð, finna að maður er ekki einn eða bara deila skemmtilegum upplifunum með öðru fólki. En hversu langt megum við ganga? Börnin verða jú einstaklingar með eigin hugmyndir, metnað og vilja en einnig ofsalega langa stafræna-sögu.

Ný samantekt sem unnin var af C.S. Mott Children’s Hospital National Poll on Children’s Health stofnuninni sýnir að stór hluti foreldra tekur þátt í því að deila upplifunum sínum á uppeldi á netinu. En þremur fjórðungum foreldra ofbýður líka oft það sem aðrir foreldrar setja á internetið um þeirra börn og finnst þau deila allt of persónulegum upplýsingum. Flestir gera sér grein fyrir því þarna er lína sem ekki má fara yfir.

Á tímum samfélagsmiðla er margt sem ber að varast sem dæmi má nefna að foreldrar gefa oft upplýsingar um staðsetningu barna sinna, áhugamál og annað slíkt. Margir setja inn myndir eða myndbönd af viðkvæmum augnarblikum í lífi barnsins sem síðar gætu verið notuð gegn barninu en net-einelti er því miður vaxandi vandamál og foreldrar eru með þessu móti ekki að hjálpa til. Einnig eru til dæmi um að óprúttnir aðilar hafi stolið myndum af börnum og birt þær á sinni eigin síðu, nokkurn veginn eignað sér barnið.

Foreldrar verða fara varlega svo þau fari ekki yfir strikið í deilingum. Línan sem skilur á milli getur verið ansi óljós. Það er nefnilega líka mikilvægt fyrir foreldra að geta haft samskipti við aðra foreldra á samskiptamiðlum, fengið góð ráð og vitað að einhver annar er að upplifa það sama. En við verðum líka að muna að bera virðingu fyrir þeim einstaklingum sem börnin okkar eru og að aðgát skal höfð í nærveru sálar, líka og kannski alveg sérstaklega þegar viðkomandi er of ungur til að hugsa fyrir sig sjálfur.