elephant-1090834_1920

Það getur skipt máli fyrir heilastarfsemi okkar á efri árum að reyna á heilann, með hinum ýmsu æfingum. Hingað til hafa hugmyndir okkar um þessar æfingar að mestu leiti snúist um hvort þær geri gagn en ekki endilega hvernig.

Í rannsókn sem unnin var við Johns Hopkins University og birtist í Journal of Cognitive Enhancement kemur hins vegar í ljós að það er ekki endilega magnið heldur gæðin, eða ættum við kannski frekar að segja gerðin, sem skiptir máli.

Í rannsókninni voru fengnir sjálfboðaliðar til að gera tvenns konar minnisæfingar á meðan heilastarfsemi þeirra var skoðuð. Að auki var einn viðmiðunarhópur sem gerði æfingar án þess að þær væru sérstaklega ætlaðar til að örva minnið.

Minnisæfingarnar tvær eru báðar vel þekktar og mikið notaðar í þessum fræðum, einmitt til að meta áhrif á minnið hjá fólki fyrir og eftir einhvers konar meðhöndlun. Önnur æfingin kallast „dual n-back“ en hin gengur undir nafninu „complex span“

Allir hópar voru látnir stunda æfingarnar í 30 mínútur á dag í heilan mánuð, áður en þeir voru kallaðir inn til frekari mælinga á heilastarfsemi. Þegar heilavirkni þeirra var mæld á nýjan leik eftir stíft æfingaprógramm sýndi sjálfboðaliðahópurinn sem æfði „dual n-back“ tvöfalt meiri framfarir í heilavirkni og getunni til að muna, samanborið við hópinn sem æfði „complex span“

Þetta gæti þýtt að það skipti verulega miklu máli hvers konar próf vísindahópar nota til að meta áhrif t.d. lyfja eða annarra meðferða þegar heilastarfsemin er annars vegar. Að auki mætti yfirfæra þetta á hvernig við, almenningur, getum reynt að viðhalda góðri heilastarfsemi og minni þegar heilinn fer að eldast.

Það mætti kannski orða það sem svo að í heilanum, líkt og í öðrum einingum líkamans, má styrkja með æfingu og skerpa þá virkni sem okkur fýsir. Á sama hátt og við notum lóð til að styrkja vöðvana þurfum við að nota réttu tólin til að styrkja minnisstöðvarnar.