Mynd: Just Graduating
Mynd: Just Graduating

Sjálfur eða selfies eru myndir sem fólk tekur af sjálfu sér. Með tilkomu snjallasíma með myndavélaaugu sem snúa fram hafa sjálfutökurnar orðið mun auðveldari. Síðar kom einnig á markað hið merkilega sjálfuprik sem gerir fólki kleift að taka sjálfur frá víðara sjónarhorni. Dásamlegt, þá þurfum við aldrei að treysta ókunnugum fyrir myndavélinni okkar þegar við viljum fá fjölskyldumynd við Geysi.

Þessi nýja tækni og í raun og veru nýja hegðun hefur vakið athygli vísindamanna og spurningar hafa vaknað um það til dæmis hvers konar hópur er það sem tekur mikið af sjálfum og hvernig er sjálfsmynd þeirra einstaklinga. Í rannsókn sem unnin var við háskólann í Toronto var leitast við að svara þessum spurningum.

Í rannsókninni voru 198 þátttakendur, um helmingur þeirra sögðust oft taka af sér sjálfur og birta á samfélagsmiðlum meðan hinn helmingurinn stundaði ekki að birta sjálfur af sér. Allir þátttakendur voru beðnir um að taka af sér sjálfur og samhliða var svo tekin sambærileg mynd af þeim, af rannsakendum. Þátttakendur voru svo beðnir um að gefa myndunum einkunn eftir því hvor myndin væri betri.

Nær undantekningalaust fannst þátttakendum sjálfan gefa betri mynd af þeim, en þeir sem voru vanir að birta sjálfur af sér gáfu sjálfunni sinni mun hærri einkun en þeir sem ekki voru vanir. Þegar óháðir aðilar voru svo beðnir um að gefa myndunum einkunn fannst flestum sjálfan vera lakari mynd af þessum tveimur. Með öðrum orðum fannst óháðum aðilum einstaklingarnir vera meira aðlaðandi þegar myndin var ekki tekin af myndefninu sjálfu.

Af þessu má draga þá ályktun að þegar tekin er sjálfa þá veljum við þá eiginleika sem við höldum að lýsi því hversu aðlaðandi við erum, sem svo reynast kannski ekki vera þeir eiginleikar sem utanaðkomandi myndu flokka aðlaðandi. Munurinn á sjálfunni og myndum sem aðrir taka liggur í raun bara í því hver metur hversu góð myndin er og líklega erum við sjálf ekki best í að túlka jákvæða eiginleika okkar.