Mynd: JK-fitness.co
Mynd: JK-fitness.co

Kaffi er vinsæll drykkur enda með eindæmum bragðgóður. Kaffi hefur reyndar þá aukaverkun að halda fyrir fólki vöku. Oft eru það einmitt áhrifin sem kaffidrykkjufólk sækist eftir, til dæmis með fyrsta kaffibolla dagsins en hversu mikil áhrif hefur kaffidrykkja á það hvernig líkamsklukka okkar tifar?

Margar rannsóknir benda til þess að koffínneysla truflar svefn hjá fólki og hafa jafnvel verið gerðar rannsóknir þar sem sýnt er fram á að koffín ruglar frumutakt þörunga og líka ávaxtaflugunnar (Drosophila melanogaster) nú hafa hins vegar sambærilegar rannsóknir verið framkvæmdar í mönnum og áhrif koffíns á þær metin.

Rannsóknin sem unnin var við University of Colorado Boulder og Laboratory of Molecular Biology, í Cambridge fól í sér að fimm þátttakendur undirgengust fjórar mismunandi meðferðir. Annars vegar tóku þau koffínpillu og eða lyfleysupillu þremur tímum fyrir venjulegan háttatíma, og hins vegar var á sama tíma lýst á þau með miklu ljósi eða með litlu sem engu ljósi á þeirra venjulega háttatíma. Samtímis meðhöndlunum voru tekin munnvatnssýni til að fylgjast með magni melatóníns í líkama þátttakenda. Þegar melatónín eykst í líkamanum er það merki um að kominn sé háttatími og á morgnanna minnkar magn melatóníns svo við vöknum. Magn melatóníns ræðst af sólarganginum, s.s. hvort sé dagur eða nótt, en skynjun líkamans á dagsbirtunni stjórnar magni melatóníns.

Þegar meðhöndlanirnar voru bornar saman kom í ljós að þegar þátttakendur fengu koffín syfjaði þá u.þ.b. 40 mínútum seinna við lítið birtustig miðað við þegar þau fengu lyfleysu. Einnig sást að þegar þátttakendur voru látnir upplifa mikla birtu þá seinkaði svefntímanum um 85 mínútur, en samlegðar áhrif þess að taka koffínpillu og vera í mikilli birtu rétt fyrir háttatíma seinkaði svefni um 105 mínútur.

Til að skoða hvað væri í gangi notaði rannsóknarhópurinn frumuræktir til að sjá hvar koffínið var að hafa áhrif. Í ljós kom að frumur sem fengu koffín höfðu ekki virka viðtaka fyrir adenosín. Adenosín er taugaboðefni sem miðlar þreytu og minnkar örvun. Viðtakarnir fyrir adenosínið voru hindraðir með koffíni, þ.e.a.s. koffínið settist á viðtakana og kom þannig í veg fyrir að adenosínið gæti komið sínum boðum á framfæri.

Þessi rannsókn sýnir það sem oft hefur verið sagt áður, að kaffidrykkja á kvöldin eða jafnvel seinni partinn er ekki æskileg. En það sem við getum líka lært af henni er að tímasetning kaffidrykkjunnar getur verið mikilvæg og það gæti nýst fólki sem er á ferðalögum og þarf að endurstilla líkamsklukkuna til að samræmast því tímabelti sem ferðast er til.