Vítamíntöflur og steinefni eru gjarnan notuð til að bæta okkur upp þau næringarefni sem við teljum okkur ekki fá úr fæðunni. Hvaða gagn allar þessar töflur gera hefur löngum verið bitbein meðal manna en meðan mörgum þykir vítamíntafla á morgnanna lífsnauðsynleg segja aðrir hana lítið sem ekkert gera.

Í rannsókn sem birt var í Journal of the American College of Cardiology var leitast við að finna svör við því hvaða áhrif vítamín hafa á líkamann. Hér var aðallega horft til hjarta- og æðasjúkdóma, þ.e. hvort inntaka vítamína (A, B1, B2, B3 (níasín), B6, B9 (fólinsýra), C, D og E vítamín og beta-karótín) eða steinefna (kalk, járn, zink, magnesíum og selen) hefði áhrif á áhættu einstalinga til að upplifa einhvers konar kvilla tengdum hjarta- og æðakerfinu.

Til að meta áhrifin var rúmlega 100 rannsóknargreinum um efnið safnað saman og niðurstöður þeirra skoðaðar. Þegar bornar voru saman áðurnefndar forsendur, þ.e. ákveðin vítamín/steinefn og hjarta- og æðatengdir kvillar, kom í ljós að inntaka vítamína hefur heilt yfir engin áhrif á heilsu, hvorki neikvæð né jákvæð. Eina vítamínið sem virtist draga úr líkum á hjarta- og æðasjúkdómum var fólinsýra.

Hins vegar sýndi inntaka andoxunarefna og níasín jákvæða fylgni við dauðsföll, af hvaða tagi sem er. Utan þessara tveggja atriða fundust engin merki um nokkur áhrif þess að taka inn vítamín. A.m.k. ekki þegar horft er til hjarta- og æðasjúkdóma.

Þá situr eftir hjá manni sú vangavelta hvernig best sé að ná ráðlögðum dagskömmtum okkar í hinum ýmsu vítamínum. Líklega er langbest að passa að borða hollt og umfram allt fjölbreytt. Ef einhver óttast að viðkomandi er ekki að fá öll nauðsynleg næringarefni úr matnum er hægt að prófa vítamíntöflur, en líklega er lang best að leita álits sérfræðinga sem geta bæði metið öll næringarefni í blóði sem og ráðlagt með viðbrögð við hvers konar skorti.