food-restaurant-hand-dinner-large

Þeir sem hafa lifibrauð sitt af því að hjálpa fólki að komast í betra form hafa margir predikað ágæti þess að sleppa því að borða eftir kvöldmat. Sumir segja það vera nauðsynlegt vegna þess að á kvöldin eigum við til að detta í óhollustu eða að við náum ekki að brenna þeirri orku sem við innbyrgðum rétt fyrir svefninn.

Hér verður ekki tekin afstaða til þess hvort þessar staðhæfingar séu sannar, hins vegar bendir ný rannsókn til þess að tímasetning máltíða skipti raunverulega máli fyrir líkamann.

Rannsóknin hefur ekki enn verið birt í ritrýndu tímariti en bráðabirgða niðurstöður hennar voru kynntar á ráðstefnu The Obesity Society sem fór fram í Bandaríkjunum í nýliðinni viku. Í rannsókninni var fylgst með ellefu manns sem öll voru látin borða annars vegar frá átta að morgni til átta að kvöldi og hins vegar frá átta að morgni til klukkan tvö eftir hádegi. Þátttakendur fóru allir í gegnum sömu rútínu og á meðan á hverri rútínu stóð var fylgst með efnaskiptum þeirra.

Þegar þátttakendur fengu einungis að borða til klukkan tvö átti líkaminn auðveldara með að brenna fitu, skipta á milli bruna á kolvetnum eða prótínum auk þess sem sveiflur í hormónum sem hafa áhrif á matarlyst voru minni.

Það má segja að þessar niðurstöður séu í andstöðu við þá hætti sem við höfum tamið okkur, flestir fylgja frekar mynstrinu að borða reglulega frá morgni og fram á kvöld. En með því að fasta frá því klukkan tvö fram á næsta morgun erum við, að mati rannsóknarhópsins, að fylgja betur okkar innbyggðu lífsklukku.

Enn sem komið er á eftir að staðfesta með langtíma rannsóknum á stærra þýði hvort þetta fæðuöflunarmunstur gæti haft áhrif á þyndartap. Þessar bráðabirgðaniðurstöður benda þó til þess að með því að færa kvöldmatinn töluvert framar í daginn færum við líkamanum aukið vald yfir orkuinntöku hans.