Mynd: Alicia Speaks
Mynd: Alicia Speaks

Við þekkjum það öll að fá ókunnugt fólk inn fyrir okkar persónulegu landamæri. Við forðumst líka flest að fara inn fyrir þessu ósýnilegu en mjög mikilvægu landamæri hjá öðrum, það er bara svo rosalega vandræðalegt að fara inn fyrir þessa línu. En þó landamærin séu ósýnileg þá virðast þau samt sem áður vera alþjóðleg. Samkvæmt rannsókn sem birtist í PNAS eru landamærin vel skilgreind í hugum fólks og þau eru breytileg eftir því hversu mikil tengsl við eigum við þann sem á í hlut.

Rannsóknin var framkvæmd á tæplega 1500 sjálfboðaliðum frá fimm löndum, sem öll svöruðu ýtarlegum spurningalista varðandi snertingar frá öðrum. Upplýsingarnar voru síðan notaðar til að búa til myndina hér að neðan, sem er fenginn úr greininni, sem sýnir hver má snerta einstaklinginn og hvar.

Það kemur kannski ekki á óvart að þeir sem standa manni næst eins og makar þurfa lítið sem ekkert að passa sig á landamærunum og að eftir því sem tengslin verða minni þá stækkar ósnertanlega svæðið sem byrjar einmitt þar sem flestir myndu giska á, í kringum kynfærin. Það sem vekur helst athygli varðandi þessa rannsókn er að menningarlegur munur hefur nánast engin áhrif á þessa mynd, flestir hafa svipaðar skoðanir á því hver hefur leyfi til að snerta sig.

Touching

Rannsakendur benda einnig á það að tengslin vega mun þyngra hvað varðar snertisvæði heldur en tímarammi, við myndum til dæmis faðma gamlan vin þrátt fyrir margra ára aðskilnað en kunningi sem við hittum annan hvern dag fær handaband. Þrátt fyrir ótal mismunandi leiðir til að hafa samskipti í gegnum internetið þá er samt líka mikilvægt fyrir einstaklinga að hitta fólk í raunveruleikanum, meðal annars til að upplifa snertingu. Snerting er eitthvað sem aldrei verður uppfyllt í gegnum nýjustu tækni en er samt sem áður mjög mikilvægur partur af samskiptaformi okkar, svo mikilvægur að munur milli landa er nánast enginn.