Fréttir gærdagsins um andlát eðlisfræðingsins Stephen Hawking fóru víða og sennilega hafa þær ekki farið framhjá lesendum Hvatans. Hinn 76 ára gamli eðlisfræðingur lést 14. mars 2018 eftir áralanga baráttu við taugahrörnunarsjúkdóm sem hélt honum í hjólastól stóran hluta ævi hans.

Hawking var fæddur 8. janúar 1942 í Bretlandi en faðir hans var enskur og móðir hans skosk. Fjölskyla Hawkings lagði mikinn metnað í menntun, en foreldrar hans voru bæði skólagengin og segir sagan að á heimili þeirra, þar sem auk Stephen voru þrjú börn, hafi meiri tími farið í lestur en munnleg samskipti. Strax á unga aldri sýndi Hawking merki um miklar gáfur en í gegnum æskuárin átti hann það til að eyða tímanum frekar í skemmtun en lærdóm.

Eftir nokkuð brösulega skólagöngu hélt Hawking til Cambridge í doktorsnám. Hann lauk þaðan doktorsprófi í eðlisfræði árið 1965 en ritgerðin hans varð einungis nýlega aðgengileg á netinu, eins og lesa má um hér.

Í doktorsritgerð sinni færði Hawking stærðfræðileg rök fyrir því að heimurinn hefði orðið til við Miklahvell (Big bang therory), en á þeim tíma var mikil rökræða milli eðlisfræðinga um hvernig heimurinn hefði skapast.

Hawking greindist með taugahrörnunarsjúkdóm aðeins 21 árs en lét það sem betur fer ekki stoppa sig í vegferð sinni í eðlisfræði. Auk þess að skilgreina heiminn fyrir okkur á tungumáli stærðfræðinnar, giftist Hawking konu sinni Jane og eignaðist með henni þrjú börn. Eitt þeirra, Lucy hefur ásamt föður sínum lagt mikið kapp í bókaútgáfu en saman hafa þau m.a. birt fræðsluefni fyrir börn um heiminn og eðli hans.

Hawking birti fjöldan allan af bókum og greinum þar sem eðli heimsins (og aðallega geimsins) eru rædd fram og til baka. Segja má að hans helsta áhugasvið hafi legið í svartholum og eðli þeirra. Kenningar Hawking hafa haft gríðarleg áhrif á sjónarhorn fræðasamfélagsins á þessi fyrirbæri.

Á þessum nótum voru flestar kenningar Hawking, en það er ekki þar með sagt að lífið hér á jörðinni hafi ekki heillað hann líka. Undir það síðasta nýtti Hawking hvert tækifæri sem gafst til að undirstrika þær hættur sem við mannfólkið höfum í gáleysi skapað okkur t.d. með hlýnun jarðar.

Kannski er hans helsta gjöf til vísindanna sú hversu frægur hann var og hversu vinsælar bækurnar hans eru. Hawking var ekki bara stórkostlegur fræðimaður hann var einnig andlit eðlisfræðinnar og innblástur ungs fólks til að feta sömu braut í vísindum. Nafnið hans mun ekki bara lifa í heimi eðlisfræðinörda heldur mun því einnig vera haldið á lofti í Trivial Pursuit og Pop Quiz-um framtíðarinnar, það er ekki leiðinlegur heiður.

Heimildir

Stephen Hawking
These are the discoveries that made Stephen Hawking famous, grein eftir Philip Ball, BBC.
I fucking loves Science
ScienceAlert
Wikipedia, Stephen Hawking