Mynd: Top Right News
Mynd: Top Right News

Margir hafa eflaust velt því fyrir sér hvort Melania Trump hafi raunverulega stolið ræðu Michelle Obama á dögunum þegar hún kynnti sig á landsfundi Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum. Eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandi þá endurtekur Melania nokkra frasa sem Michelle notaði sjálf, nánast orðrétt, árið 2008.

En getur verið að líkindi ræðanna sé raunverulega tilviljun? Það er auðvitað hægt að reikna það út hverjar líkurnar eru á því að Melania hafi fyrir tilviljun raðað sinni ræðu upp á sama hátt og ræða Michelle var á sínum tíma.

Formúlan er reyndar nokkuð einföld eins og eðlisfræðingurinn Bob Rutledge sýndi fram á í facebook-færslu sinni á þriðjudaginn. Hann tekur til 14 setningar sem eru eins í ræðum kvennanna og gefa ræðunum þá merkingu sem þær hafa væntanlega viljað koma á framfæri. Til að reikna hverjar líkurnar eru á því að frösunum hafi fyrir tilviljun verið raðað í sömu röð árið 2008 og 2016 notar Bob líkindareikning, svipaðan þeim sem hægt er að nota til að reikna út líkurnar á því að vinna í lottóinu. Fyrst eru 14 frasar í boði, sem allir hafa jafna möguleika á að vera fyrsta setningin. Síðan fækkar frösunum niður í 13, þar sem einn er nú þegar orðinn fyrsta setningin og því næst eru frasarnir 12 og svo koll af kolli. Formúlan sem kemur úr er því:

14*13*12*11*10*9*8*7*6*5*4*3*2*1.

Sé reiknað útúr þessari runu er svarið 87 milljarðar. Það þýðir að Melania hafði 87 milljarða aðferða til að raða frösunum upp, og 86.999.999.999 uppraðanir hefðu verið frábrugðnar þeirri leið sem Michelle kaus að nota árið 2008.

Þessi formúla gerir reyndar ráð fyrir því að frasarnir geti komið fyrir í hvaða röð sem er þ.e. að þeir séu allir óháðir hver öðrum. Það er örlítill galli þar sem sá möguleiki er fyrir hendi að einn frasi sé undanfari annars. Hins vegar gerir formúlan líka ráð fyrir því að ekki sé hægt að orða hlutina öðruvísi, þ.e. að enska tungumálið sé svo fátækt af orðum að eina leiðin fyrir Melaniu til að tjá þessar tilfinningar sínar séu með nákvæmlega sömu orðum og Michelle notaði. Það er að öllum líkindum ekki rétt heldur.

Það má því segja að líkurnar á því að Melania hafi ekki stolið ræðu Michelle séu 1 á móti 87 milljörðum. Það eru ekki sérlega góðar líkur. Hún á töluvert meiri líkur á því að vinna í lottóinu.