Head-Transplantation-–-How-far-are-we

Ítalskur læknir að nafni Sergio Canavero komst í fréttirnar nýlega þegar hann birti grein þess efnis að mögulegt væri að græða höfuð á nýjan líkama eða öfugt. Nú hefur þrítugur rússneskur maður, Valery Spiridonov, boðið sig fram í að vera fyrsti sjúklingurinn sem fær nýjan líkama með aðferð Dr. Canavero.

Spiridonov þjáist af sjaldgæfum vöðvarýrnunarsjúkdómi sem nefnist Werding-Hoffmann sjúkdómur og ef aðgerðin heppnast gæti nýji líkaminn gjörbreytt lífsgæðum hans. Aðgerðin er þó eðlilega mjög umdeild. Dr. Hunt Batjer, forseti American Association for Neurological Surgeons, hefur til að mynda lýst því yfir að afleiðingar aðgerðarinnar gætu verið verri en dauði, ef svo ólíklega vill til að líkaminn hafnar ekki höfðinu. Einnig sagði siðfræðingurinn Arthur Caplan í samtali við The Independent að Dr. Canevero væri brjálaður.

Ætla má að aðgerðin, sem Dr. Canavero vonast til að framkvæma árið 2017, taki um 36 klukkustundir og að 150 læknar og hjúkrunarfræðingar komi að henni. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem menn hafa reynt að græða höfuð á nýjan líkama en árið 1970 tókst vísindamönnum að græða höfuð apa á líkama annars apa. Apinn lifði aðeins í átta daga og hafnaði líkaminn nýja höfðinu svo apinn gat hvorki andað né hreyft sig. Ef Dr. Canavero tekst að framkvæma aðgerðina er ómögulegt að vita hvaða afleiðingar það hefur en hann virðist þó ekki ætla að láta það stöðva sig.

Ted fyrirlestur Dr. Sergio Canavero um aðgerðina má sjá hér fyrir neðan: