rice

Nýverið uppgötvaðist að hrísgrjón innihalda hættulega mikið magn af arseni. Arsen er málmungur sem getur í miklu magni valdið alvarlegum veikindum m.a. krabbameini í lungum og þvagblöðru. Erlendir jafnt sem innlendir fjölmiðlar hafa fjallað um hættuna nú síðast á RÚV í mars.

Fólk hefur að miklu leyti staðið ráðalaust gagnvart því hvernig hægt er að bregðast við þessum eiturefnum, með öðrum hætti en að takmarka inntöku á hrísgrjónum. Nú hefur vísindahópur frá Queen’s University í Belfast, birt niðurstöður sínar um aðferð sem minnkar arsen í hrísgrjónum.

Niðurstöðurnar voru birtar í PLOS ONE á dögunum. Samkvæmt prófunum vísindahópsins getur hver sem er losað sig við arsen úr grjónunum á frekar einfaldan hátt, nefnilega með kaffivél. Í greininni er notast við espressokaffivél, sem sýður vatnið og þrýstir því svo í gegnum kaffikorginn. Það sama er gert við hrísgrjón, vatninu er þrýst í gegnum þau. Með þessu móti eru grjónin soðin með gegnumstreymi af vatni, svo arsenið skolast í burt.

Til að fá sem bestar niðurstöður þarf vatnsmagnið líka að vera í réttum hlutföllum við grjónin, en niðurstöður hópsins voru að vatn-hrísgrjón hlutföllin 12:1 virkuðu best. Samkvæmt mælingum sem gerðar voru eftir suðuna virðist arsenmagnið fara niðurfyrir viðmiðunarmörk við þessa meðhöndlun. Þetta verða að teljast ánægjulegar fréttir og hrísgrjónaaðdáendur geta nú haldið áti sínu áfram áhyggjulaust, ef grjónin þeirra eru rétt soðin.

Lesið einnig Arsen í matvælum