surprised baby

Lítil börn þurfa að læra mjög margt á skömmum tíma. Ný rannsókn sem unnin var við John Hopkins University, þar sem hegðun barna var skoðuð bendir til þess að börn læri mest af því að sjá hluti sem koma þeim á óvart.

Vísindamennirnir unnu með 110, 11 mánaða gömlum börnum. Til að skoða hvernig börnin lærðu létu vísindamennirnir hluti sem börnin þekktu, eins og bolta, hegða sér annars vegar með hætti sem var fyrirsjáanlegur og annars vegar með ófyrirsjáanlegum hætti.

Boltinn var annars vegar látinn rúlla niður af rampi og stoppa á vegg, sem er rökrétt. Í hinu tilfellinu rúllaði boltinn niður af rampi og í stað þess að stoppa á veggnum létu vísindamennirnir líta út fyrir að boltinn færi í gegnum vegginn. Þegar boltinn stoppaði ekki á veggnum, eins og börnin bjuggust við, veittu þau honum meiri athygli en þeim bolta sem hlýddi áður skilgreindum lögmálum þeirra.

Þegar boltinn virtist fara í gegnum vegginn virtust börnin prófa boltann með því að lemja honum við borð. Vísindamennirnir túlkuðu þetta sem próf barnanna á þéttleika boltans. Að sama skapi prófuðu börnin bíl sem virtist svífa í loftinu, með því að athuga hvort hann félli í jörðina þegar þau slepptu honum.

Aimee E. Stahl og Lisa Feigenson sem standa fyrir rannsóknarhópnum segja þessar niðurstöður auka skilning okkar á því hvernig börn læra. Þau virðast nota rökvísi til að skilgreina hvaða fyrirbæri eiga skilið aukna athygli og einbeitingu og á sama hátt prófa þau hlutina útfrá því sem þau hafa áður séð. Það mætti því segja að það sé hið óvænta sem hjálpar börnum helst að læra og gera tilraunir.

Í meðfylgjandi myndbandi má sjá Aimee og Lisu ræða um rannsóknina.