Mynd: Bodybuilding
Mynd: Bodybuilding

Neanderthalsmenn voru, eins og áður hefur verið rætt á Hvatanum, uppi á sama tíma og sú tegund manna sem nú byggir jörðina. Þetta sjáum við á steingervingasögunni en ekki síst á erfðaefni okkar sem sýnir einnig að Homo sapiens og neanderthalsmenn hafa makast.

Skýr munur var þó á tegundunum, meðal annars á líkamsbyggingu þeirra. Neanderthalsmenn voru með mun breiðari brjóstkassa og mjaðmagrind samanborið við núlifandi tegund. Nú hefur ný rannsókn varpað ljósi á hvernig stendur á því að neanderthalsmenn voru með svo breiða líkamsbyggingu.

Vísindahópurinn sem vann að rannsókninni hafði undir höndunum upplýsingar um fæðuöflun tegundarinnar, en neanderthalsmenn innbyrgðu mikið af prótínríkummatvælum þar sem bæði fita og kolvetni var oft af skornum skammti. Talið er að fæða þeirra hafi samanstaðið af allt að 85% prótíni. Svo mikil inntaka prótína er ekki æskileg fyrir tegund sem einnig þarf að nota kolvetni og fitu, en þegar ekkert annað býðst þá getur líkaminn gripið til ráðstafanna til að örva vinnslu prótínanna. Ein afleiðing þess er að bæði lifrin og nýrun þurfa að vinna heilmikla aukavinnu til að vinna úr öllum þeim flókna mat sem kemur inní kerfið.

Líklegt er að bæði lifur og nýru í neanderthalsmönnum hafi stækkað vegna þess að tegundin lifði á svo prótínríku fæði. Þessu til staðfestingar hafa tilraunir á dýrum sýnt fram á stækkun lífæranna, þ.e. lifur og nýra, við aukna inntöku prótína.

Þessar niðurstöður eru sérstaklega áhugaverðar í ljósi áhuga vestrænna ríkja við að auka prótíninntöku. Margir einkaþjálfarar mæla sérstaklega með að skjólstæðingar þeirra dragi verulega úr neyslu fitu en þá aðallega kolvetna og bæti það upp með prótíni. Skyldi Homo sapiens þá geta átt von á svipuðum líkamlegum breytingum?