yawning

Bara við að lesa titilinn á þessari frétt eru að öllum líkindum einhverjir þarna úti byrjaðir að geispa. Löngunin til að geispa verður svo ennþá meiri ef geispandi einstaklingur er í sjónmáli. Þetta þekkja sennilega allir, en hvers vegna gerist þetta?

Það að geispa þegar einhver annar geispar flokkast undir það sem mætti kallast hermi-hegðun eða echophenomea. Í þeim tilfellum þar sem við hermum eftir geispa hefur þessi hegðun ekki mikil áhrif, en alvarlegri útgáfur af hermihegðun geta haft gríðarleg áhrif á líf einstaklinga en þar undir flokkast t.d. Tourettes.

Til að skoða hvað það er sem kveikir á þessum eftirhermum fékk The University of Nottingham 36 sjálfboðaliða til að horfa á myndband af fólki að geispa. Helmingnum var sagt að herma ekki eftir meðan hinum hluta hópsins var ekki gefin nein fyrirmæli um hvernig ætti að bregðast við geispunum. Á meðan þessu öllu stóð voru geispar sjálfboðaliðanna taldir og fylgst var með heilastarfsemi þeirra.

Áhrif geispanna komu jafnskýrt fram hjá báðum hópum, allir upplifðu þessa óstjórnlegu þörf til að geispa eftir að hafa séð fólk geispa í myndbandinu. Það s.s. skiptir ekki máli hvort einstaklingar vilja geispa eða ekki, við fáum bara engum um þetta ráðið. Þegar sjálfboðaliðarnir sáu einhvern geispa jókst virkni taugafrumna í hreyfistöðvum heilans, hvort sem einstaklingarnir létu eftir geispanum eða reyndu eftir fremsta megni að halda aftur af honum.

Það að halda aftur af geispa við þessar aðstæður virðist reyndar hafa þveröfug áhrif, en sá hluti hópsins sem lét ekki undan geispunum virtist þurfa að geispa oftar en hinir. Þetta ásamt örvuninni á hreyfistöðvar heilans rímar vel við það ástand sem skapast hjá t.d. einstaklingum með Tourette’s og er nokkurs konar vægari útgáfa af því.

Rannsókn eins og þessi getur því lagt grunn að því að skilja hvað það er sem gerist hjá einstaklingum með taugasjúkdóma sem mætti skilgreina sem ýktari tilfelli hermihegðunar. Þannig er hægt að skoða hvernig má auðvelda fólki með þessa sjúkdóma lífið, jafnvel með huglægri atferlismeðferð eða lyfjagjöf eða annað slíkt.

Niðurstaðan er sem sagt sú, við ráðum ekkert við þessi hermigeisp, svo láttu það bara eftir þér. Geispaðu!