Mynd: Wired
Mynd: Wired

Það eru sennilega margir sem verða ruglaðir af því að reyna að fylgjast með vísindafréttum, þær virðast margar hverjar vera að finna furðulegar töfralausnir við flóknum vandamálum og sumar eru jafnvel í þversögn við aðrar rannsóknir sem birtast á svipuðum tíma.

En hvers vegna er svona erfitt að setja vísindin fram án þess að það rugli lesandann? Hér er um flókið samspil vísindamanna og fjölmiðla að ræða. Margir vísindamenn kvarta yfir því að fjölmiðlar taka rannsóknir þeirra úr samhengi. Það er að mörgu leyti rétt, oft er rannsóknin kynnt án þess að segja frá öllu því sem skiptir máli, eins og hvernig rannsóknin var framkvæmd eða kastljósið beinist að einhverju sem var ekki hin raunverulega rannsóknarspurning.

Hins vegar er mikilvægt fyrir vísindamenn að reyna að vekja almenning til umhugsunar um það sem fram fer í vísindaheiminum og það les líklega enginn fréttir sem ekki fjalla um mikilvæga, áhugaverða og umfram allt marktæka hluti. Vísindamenn eiga það oft til að týna sér í smáatriðum varðandi rannsóknirnar þeirra, svo djúpt fara þeir oft að áheyrandinn eða lesandinn missir alla athygli á rannsókninni. En svo gleymist kannski að segja frá aðalatriði rannsóknarinnar.

Það er því mjög mikilvægt að feta hér hinn gamalkunna gyllta meðalveg, fá kynningu á rannsóknum frá einhverjum sem hefur þekkingu til að skilja kjarnann frá hisminu án þess þó að snúa útúr þeim niðurstöðum sem fengust. Í myndbandinu hér að neðan er farið nokkuð ítarlega í þessi málefni á skemmtilegan hátt.