bath scale

Eflaust eru margir nú þegar byrjaðir í átaki haustsins. Syndir sumarfrísins sitja sem fastast á maga, rass og lærum og ekkert virðist duga til nema almennilegt átak sem leiðir til endalausra ferða á baðvogina. Þeir sem standa í þessu basli hafa eflaust tekið eftir því að kílógrömmin geta sveiflast ansi mikið milli daga eða jafnvel dagparta.

Svo virðist sem talan sem birtist sé algjörlega úr lausu lofti gripin þar sem hún rímar ekki við töluna sem birtist daginn áður. Þessar sveiflur geta reynst mörgum mjög erfiðar, enda búast flestir við að talan fari lækkandi með meiri hreyfingu og minna áti. Sannleikurinn er samt sem áður sá að á hverjum degi fer fram rosalega vinna í líkamanum. Við borðum og drekkum ákveðið magn af mat og drykk, hluta af því skilum við út með þvagi og saur en stærstur hluti þess fer út á ósýnilegan hátt, eða svona nánast.

Martin Robbins lýsir því á The Guardian hvernig líkamsþyngd hans sveiflaðist á aðeins klukkustunda fresti. Á sama tíma vigtaði Martin allt sem hann borðaði og drakk og lagði einnig mat á þyngd þess sem hann skilaði frá sér. Niðurstöður hans á þessari þriggja daga rannsókn sýndu að aðeins lítlum hluta orkunnar sem hann innbyrti var skilað út í þvagi eða saur.

Orkan úr matnum fer nefnilega líka að stórum hluta í að halda líffærunum okkar gangandi, gera vöðvunum okkar kleift að hreyfast, gera við vefi sem skemmast og einnig það einfalda verk að hugsa. Allt sem við gerum er í grunninn efnahvörf sem þurfa orku til að fara fram. Þess vegna skilum við orkunni sem verður afgangs út í gegnum húðina með svita eða gegnum andadráttinn með raka og koldíoxíði.

Skilaboðin, til þeirra sem horfa með tár á hvarmi á töluna á vigtinni eru þessi, talan á vigtinni skiptir ekki höfuðmáli, það sem skiptir máli er í hvora áttina talan þokast þegar tekið er meðaltal síðastliðinna tveggja vikna eða svo. Það þarf nefnilega að mæla þyngdina ansi oft til að fá nákvæma niðurstöðu og þar sem líkaminn er alltaf á fleygiferð með sína starfsemi þá getur klukkutími til eða frá haft áhrif á niðurstöðu vogarinnar. Að sjálfsögðu skiptir svo höfuðmáli að lifa heilbrigðu líferni og vigtin eða fatastærðin segir ekki endilega alla söguna þar.