school-kids

Margar kannanir sem lagðar eru fyrir grunnskólabörn hér á Íslandi benda til þess að drengjum gangi verr að ná tökum á lærdómnum en stúlkum. Sumir hverjir hafa jafnvel ekki náð tökum á því að lesa sér til gagns þegar grunnskóla lýkur, samkvæmt PISA könnunum. Fleiri tölur tala sama máli, til dæmis er brottfall drengja úr framhaldsskóla hærra en brottfall stúlkna og yfirleitt eru nemendur í deildum háskólans kvenkyns frekar en karlkyns. Þetta er ekki einsdæmi á Íslandi og því miður standa margar Evrópskar þjóðir frammi fyrir sama vandamáli.

Það er mikilvægt að allir hafi jöfn tækifæri til náms og því mikilvægt að finna skýringu á því ef einhver hópur verður útundan í menntakerfinu. Ný rannsókn sem birt var í Masculinities & Social Change varpar ljósi á ástæður þess að drengjum gengur verr í skóla og opnar þannig möguleikann á að laga það sem miður fer í menntakerfinu.

Rannsóknin var unnin með viðtölum við hátt í 900 nemendur á aldrinum 13-14 ára í grunnskóla í Bern í Sviss. Auk viðtalana var fylgst með nemendum í skólastofunni og árangur þeirra þar metinn.

Um 8% nemenda, bæði stráka og stelpna, upplifðu skólann fjarlægan og tilgangslausan. Þó hlutfallið sé svipað milli kynjanna þá virtust áhrifin frekar koma fram í strákahópnum. Strákar sem voru fjarlægir skólanum og upplifðu hann tilgangslausan áttu erfiðara með að einbeita sér í tímum og sýndu því slakari árangur.

Hugmyndir drengja um hlutverk kynjanna hafði einnig stór áhrif á viðhorf þeirra til skólans. Þeir strákar sem sáu lífið fyrir sér í hinum hefðbundnu kynjahlutverkum voru frekar líklegir til að missa áhugann á skólanum eða finnast hann tilgangslaus miðað við þá stráka sem ekki fylgdu hinum hefðbundnu kynjahlutverkum.

Helstu leiðir menntakerfisins, sem greinahöfundar benda á, til að laga þessa skekkju kynjanna í skólunum er jafnréttisfræðsla. Fyrst og fremst er mikilvægt að gera nemendum grein fyrir því að hlutverk þeirra skilgreinist ekki útfrá kynferði þeirra heldur útfrá þeirra eigin hæfileikum. Þannig eru meiri líkur á að allir nemendur getir þroskað með sér þann hæfileika og áhuga sem þeim hentar. Kennsla og kennsluaðferðir hafa mikið að segja um hvernig hægt er að halda þessum drengjum við efnið. Í rannsókninni sem hér er vísað í bendir margt til þess að sterk handleiðsla henti þessum nemendum betur en öðrum nemendum. Því má segja að nú reiði á handleiðslu foreldra og kennara að stuðla að jafnrétti svo bæði strákar og stelpur geti nýtt sér þá möguleika sem framtíð þeirra ber í skauti sér.