Mynd: WikiHow
Mynd: WikiHow

Kitl er ofsalega skrítið fyrirbæri, það er óþægilegt en vekur samt upp hlátur. Margir hafa mögulega líka velt því fyrir sér hvers vegna við bregðumst ekki á sama hátt við því þegar við reynum að kitla okkur sjálf eins og þegar einhver annar gerir það.

Vísindamenn telja að hlátur þegar við erum kitluð sé merki okkar um uppgjöf. Þegar við erum kitluð og förum að hlæja þá virkjast heilastöðvar sem einnig virkjast við svo kallað „fight or flight“ viðbragð, þ.e. flýja eða berjast. Á sama hátt má líta á kitl sem ákveðna ógnun, þar sem einhver snertir okkur á viðkvæmum stöðum eins og á maganum. Með því að hlæja gefum við til kynna að við höfum ekki í hyggju að berjast við viðkomandi. Þetta á auðvitað ekki við á sama hátt í dag eins og það gerði kannski fyrir forfeður okkar, en engu að síður lifa þessi lífeðlisfræðilegu viðbrögð okkar.

Þegar við kitlum okkur sjálf erum við augljóslega ekki að ógna okkur svo „fight or flight“ viðbragðið er óþarft. Það er þó ekki ástæðan fyrir því að við hlæjum ekki, þ.e. að okkur kitlar ekki. Ástæðan er einföld, heilinn veit hvað við erum að fara að gera. Hreyfingin sem veldur kitlinu er ekki óvænt, eins og á við þegar einhver annar kitlar okkur. Sá hluti heilans sem stýrir og skynjar hreyfingar okkar nær yfirhöndinni yfir þeim hluta heilans sem skynjar snertinguna, og þá um leið kitlið.

Það hefur því lítið uppá sig, því miður, að reyna að kalla fram þessa furðulegu gleði sem kitl gerir þegar maður er einn heima. Það hefur reyndar líka lítið uppá sig almennt að kitla annað fólk, þ.e.a.s. kitl þjónar ekki beint neinum tilgangi, en þrátt fyrir allt þá vekur það yfirleitt með okkur gleði og getur einnig verið ómissandi aðferð fyrir tenglsamyndun barna og foreldra.