Wash_your_hair

Hárþvottur er umræðuefni sem skýtur reglulega upp kollinum í vinahópum og flestir hafa líklega einhverntíman velt því fyrir sér hversu oft þeir eigi að þvo sér um hárið. En hvað segja vísindamenn um hárþvott? Vefsíðan Business Insider tók saman nokkrar merkilegar staðreyndir um hárþvott.

Ástæðan fyrir því að hár verður feitara eftir því sem lengri tími líður frá hárþvotti er að kirtlar í húðinni mynda olíukennt efni sem nefnist húðfita eða húðfeiti (e. sebum). Kirtlarnir sem seyta húðfitu eru staðsettir við rætur hársins í lagi húðarinnar sem nefnist leðurhúð.

hair_follicle

Húðfita hefur það hlutverk að koma í veg fyrir að hár og húð þorni upp en það er einstaklingsbundið hversu mikið af efninu kirtlarnir losa og er það þess vegna sem að hár og húð fólks verður misfeitt. Hormónaframleiðsla ásamt erfðum getur haft áhrif á magn húðfitu en það er einmitt hormónaframleiðslan á unglingsárunum sem veldur því að unglingar fá oft feita húð og hársvörð.

En hversu oft eigum við þá að þvo á okkur hárið? Samkvæmt húðlækninum Parai Mirmirani, sem ræddi við Buisiness Insider, er það einstaklingsbundið, þó eigi enginn að þvo það daglega. Með því að þvo hárið á hverjum degi til þess að losna við feitið erum við í rauninni að þurrka upp hársvörðinn og hann framleiðir enn þá meira húðfitu.

Auðvitað er þörf á hárþvotti mjög einstaklingsbundin og þess vegna þarf hver og einn að prófa sig áfram og athuga hvað hentar sér best, gott er þó að hafa eftirfarandi atriði í huga:

Húðgerð
Samkvæmt spurningadálknum Go Ask Alice, sem Colombia University sér um, ættu þeir sem hafa hársvörð sem er hvorki mjög olíkenndur né mjög þurr að þvo á sér hárið einu sinni til tvisvar sinnum í viku. Þeir sem hafa feitan hársvörð ættu að gera það oftar.

Áferð hárs
Gróft og krullað hár hægir á dreifingu húðfitu svo líklegt er að nóg sé að þvo hárið um einu sinni í viku. Húðfitan dreifist aftur á móti hraðar um fíngert og slétt hár og því þarf að þvo það oftar.

Stílísering
Ert þú einn eða ein af þeim sem setur mikið af efnum í hárið eða notar sléttujárn? Þá er líklegt að hárið verði fyrir meiri skaða en eðlilegt er og er þess vegna betra að þvo það sjaldnar.