Ice-cone

Við Íslendingar upplifum kannski ekki oft að borða ís í svo miklum hita að hann bráðnar áður en við náum að borða hann, enda er hitastigið oftast nær ísskápshita en bakarofnshita hjá okkur. Það kemur þó einstaka sinnum fyrir að ísinn nær ekki alla leið í munninn áður en sólin lætur til sín taka og þó það gerist sjaldan er það einstaklega leiðinlegt að ganga um með ísklessur framan á brjóstkassanum.

Íslenskir ís-unnendur þurfa sem betur fer ekki að örvænta því nú hafa vísindahópar við háskóla í Edinburgh og Dundee uppgötvað að prótínið BslA getur komið í veg fyrir að ísinn bráðni. BslA bindur saman fitu, vatn og loft, og gefur ísnum þannig aukið hitaþol auk þess sem áferðin verður mjúk. Með því að bæta þessu prótíni í, verður áferðin nægilega mjúk svo að möguleiki opnast á að minnka notkun á mettaðri fitu í ísframleiðslu.

Svo virðist sem prótínið, sem fannst í bakteríu, geti því bæði aukið skilvirkni í framleiðslu og geymslu á ís sem og minnkað óhollustuna við hann. Hóparnir sem standa að rannsóknunum vonast til að prótínið verði komið á markað innan 3-5 ára.

Vegna þeirra eiginleika sem prótínið gefur ísnum væri Icehot1 kannski réttnefni?