world-happiness-news

Þrátt fyrir allar lægðirnar sem gengu yfir landið í vetur, allt myrkrið sem grúfir yfir þjóðinni frá nóvember og fram í febrúar og almennan pirring þjóðarsálarinnar yfir skattkerfinu, menntakerfinu, heilbrigðiskerfinu, túristunum, nágrannanum og svo framvegis, þá eru Íslendingar næst-hamingjusamast þjóð í heimi.

Í fyrsta sæti er Sviss, enda búa þau til himnseskt súkkulaði sem rétt nær að slá okkar guðdómleika við. Þriðja til fimmta sæti verma svo eftirfarandi þjóðir, Danmörk, Noregur og Kanada. Listinn sem hér er vísa í kallast World Happiness report 2015, en hann hefur verið gefin út árlega síðan árið 2012. Listinn er tekinn saman fyrir Sameinuðu þjóðirnar af Sustainable Development Solutions Network en hann er ákveðinn mælikvarði á framgang og þróun ríkjanna 158 sem eru samankomin á þessum lista.

En hvernig er hamingja mæld? Flestir hljóta að vera sammála um að það er erfitt að finna eina góða mælieiningu á hamingju og mörgum gæti fyrst dottið í hug að ríkar þjóðir væru hamingjusamari en þær sem fátækari eru. Auðævi er þó ekki eini þátturinn sem þarf að taka inní þar sem sanngirni, heiðarleiki, traust og heilbrigði vega einnig þungt þegar kemur að því að mæla hamingju. Þeir þrír þættir sem vega þyngst, eins og fram kemur í skýrslunni, er góð heilsa fram á efri ár, góð félagsleg staða þ.e. að hafa einhvern til að treysta á og frelsi; frelsi einstaklingsins til að taka ákvarðanir, frelsi frá spillingu og frelsi frá þjóðarmorðum.

Hamingja einstaklinga skiptir höfuðmáli ef samfélög eiga að geta blómstrað, ekki bara efnahagslega en að sjálfsögðu vegur hamingja einnig þungt á efnahag. Þess vegna geta þjóðarleiðtogar nú nýtt sér þær upplýsingar sem koma fyrir í skýrslunni til að stuðla að meiri hamingju þegna sinna og reyna þannig að lyfta ríkinu á hærra plan.