Living Touch Massage
Living Touch Massage

Sú mýta hefur lengi verið við líði að kynlíf dragi úr frammistöðu íþróttafólks á vellinum. Þess vegna fá íþróttamenn og konur oft þau fyrirmæli að halda öllum kynlífsreynslum í lágmarki á meðan á stórum mótum stendur, eða það er að minnsta kosti ímyndin sem við fáum úr bíómyndum.

Nýlega birtist rannsókn í Frontiers in Physiology þar sem þessi mýta er krufin til mergjar í þeim tilgangi að sýna fram á hvort hún á rétt á sér eður ei. Í rannsókninni eru teknar saman allar birtar greinar um málefnið. Þegar rannsóknarhópurinn hafði grisjað úr þær greinar sem þóttu nægilega áreiðanlegar stóðu níu rannsóknir eftir, sem voru skoðaðar til hlítar.

Samkvæmt þessum greinum hefur kynlíf ekki áhrif á frammistöðu íþróttafólks. Flestar rannsóknirnar gáfu til kynna að kynlíf hefði engin áhrif á íþróttafólk en a.m.k. ein gaf til kynna að kynlíf daginn fyrir keppni hefði jákvæð áhrif á árangur viðkomandi.

Líklegt er að áhrif kynlífs á frammistöðu íþróttafólks séu engin eða í það minnsta hverfandi. Það er þó áhugavert að skoða hvort einhver munur sé á körlum og konum hvað þetta varðar. Auk þess sem mismunandi íþróttagreinar gætu sýnt mismunandi áhrif. Það er þó nokkuð ljóst að rannsóknirnar sem liggja að baki þeirri fullyrðingu að kynlíf dregur úr árangri íþróttafólks eru ekki reistar á áralöngum rannsóknum.