Mynd: International Business Times
Mynd: International Business Times

NASA fagnaði mikilvægum tímamótum á sjálfan þjóðhátíðardag Bandaríkjanna 4. júlí síðastliðinn. Þennan dag komst geimfarið Juno á sporbaug um Júpíter. Juno hefur verið á ferðinni síðastliðin fimm ár í þeim tilgangi að komast að komast á Júpíter til rannsókna. En ferðalagi Juno er samt sem áður ekki lokið þó merkum áfanga hafi verið náð.

Nasa sendi Juno af stað 5. ágúst 2011 með búnað til að rannsaka þróun og sögu Júpíters frá grunni. Juno á að skilgreina segulsvið plánetunnar, hversu mikið vatn og hversu mikið ammoníak er þar að finna svo einungis fáeinir hlutir séu nefndir.

Nú hefur Juno náð mikilvægu og mögulega erfiðasta skrefinu, að komast á sporbaug Júpíters en rannsóknirnar hefjast þó ekki alveg strax. Fyrst þarf rannsóknarhópur NASA að staðfesta að Juno virkar eins og til er ætlast. Í október stefnir hópurinn svo að því að byrja að safna gögnum sem munu vonandi fletta hulunni af þróun þessarar risaplánetu.

Á heimasíðu NASA er hægt að fylgjast með framgangi mála og lesa sér til um tilgang og búnað Juno á Júpíter en þar er einnig að finna mörg fróðleg og skemmtileg myndbönd um verkefnið.