Mynd: Pearl Island Living
Mynd: Pearl Island Living

Margir kaffiunnendur hafa í áranna rás verið í vandræðum með að skilja skilaboð rannsókna um góð eða slæm áhrif kaffidrykkju. Sumir hafa jafnvel brugðið á það ráð að lesa einungis rannsóknir sem skila jákvæðum niðurstöðum varðandi kaffidrykkju, sem er kannski bara ágætisregla ef maður vill endilega halda í morgunkaffið sitt.

Nú hefur vísindahópur við Ulster University kannski loks svarað spurningum okkar um hollustu kaffisins. Í rannsókninni eru teknar saman 1277 rannsóknir sem gerðar hafa verið til að meta áhrif koffínneyslu á hina ýmsu heilsufarsþætti eins og hjarta- og æðasjúkdóma, krabbamein, taugasjúkdóma, efnaskiptasjúkdóma og margt fleira ásamt dánartíðni.

Niðurstaða samantektarinnar kemur kannski ekki mjög mikið á óvart, en þegar allar þessar rannsóknir eru teknar saman þá virðast jákvæð áhrif kaffidrykkju mögulega vega upp þau neikvæðu áhrifum sem kaffineysla getur haft.

Með öðrum orðum, kaffidrykkja er hvorki holl né óholl.

Rétt er þó að taka fram að þó fjölmargar rannsóknir á áhrifum koffínneyslu hafa verið framkvæmdar þá er yfirleitt ekki notast við staðlaða gerð koffíns, þ.e. uppruna kaffisins, meðhöndlun þess eða magn, auk þess sem þátttakendur eru ekki heldur staðlað þýði. Þetta þýðir að rannsóknirnar eru ekki fullkomlega sambærilegar og oft eru viðfangsefni hverrar rannsóknar ekki sambærileg innbyrðis. Það mætti þó giska á að ef kaffi hefði afgerandi góð eða slæm áhrif á heilsu þá væri það yfir breytileika þátttakenda hafið og áhrifin kæmu samt sem áður fram.