Mynd: The Educational Forum Of JFresh To Death
Mynd: The Educational Forum Of JFresh To Death

Hugtök í vísindum geta oft verið flókin og ógagnsæ, svolítið eins og umræður á alþingi. Mörg hugtök eru vísindamönnum töm á allt annan hátt en þau eru okkur töm í daglegu tali. Dæmi um þessi hugtök eru, kenning, tilgáta, staðreynd og lögmál. Flestir hafa heyrt talað um þróunarkenninguna og þeir sem ekki halda að hún sé sönn kasta oft fram orðræðu á borð við „þetta er nú bara kenning“. En kenning í samhengi vísindanna er ekki alveg eins og sú kenning sem okkur er tamt að tala um í daglegu tali.

Vísindi snúast mikið um að skoða staðreyndir, staðreyndir er eitthvað sem við sjáum eða finnum. Síðan búum við til tilgátur um hvers vegna við sjáum þessa tilteknu staðreynd. Tilgátur eru eins og það sem oft er kallað kenningar í daglegu tali, tilgáta er hugsanleg útskýring á því af hverju hlutirnir eru eins og þeir eru og til að komast að sannleika um það þá prófum við tilgátuna. Þegar nægilega mörg próf hafa verið gerð sem styðja tilgátuna okkar þá verður til kenning. Kenning er nefnilega tilgáta sem er rosalega vel rökstudd af ótalmörgum prófum.

Enn annað eru svo lögmál, en lögmál í vísindum segja til um hvernig hlutirnir virka. Lögmál útskýra ekki hvers vegna heldur einungis hvernig. Lögmál er því ekki eitthvað sem okkur ber að hlýða, eins og önnur lög, heldur er það úrskýring á fyrirbærum sem fyrirfinnast í heiminum.

Joe í It’s OK to be smart tekur þetta einstaklega vel saman í myndbandinu hér fyrir neðan. Við mælum með því að þið horfið á það og gerið svo upp við ykkur hvort það sé endilega svo slæmt að þróunarkenningin sé „bara kenning“.