Mynd: Bestofpicture
Mynd: Bestofpicture

Lífstíll nútímamannsins er að valda okkur ama á svo marga vegu. Dæmi um það sem veldur okkur ama er sitjandi vinna. Vinnudagur margra einkennist af setu við skrifborð í heila 8 klukkustundir, setu í bílnum til og frá vinnu og setu yfir sjónvarpinu á kvöldin. Við höfum margsinnis heyrt að kyrrseta sem þessi geri okkur ógagn en hversu mikið?

Ný rannsókn sem birt var í The Lancet á dögunum tekur saman nokkrar rannsóknir þar sem ávinningur hreyfingar er metinn. Helstu niðurstöður rannsóknanna eru þær að til að bæta upp fyrir 8 klukkustunda setu á skrifstofunni dugir einnar klukkustundar hreyfing á dag. Þessi klukkustundar hreyfing þarf ekki einu sinni að fela í sér mikið svitakóf, göngutúr er sem dæmi ágætis hreyfing.

Þetta er þó ekki allt, því samkvæmt samantekt hópsins er ávinningur hreyfingarinnar meiri en skaðinn sem kyrrsetan veldur. Þetta þýðir að með meiri hreyfingu aukum við lífsgæði okkar óháð því hvort við sitjum allan daginn í vinnunni eða ekki. Þeir sem sitja allan daginn og hreyfa sig lítið eru miklu betur settir en þeir sem sitja allan daginn og hreyfa sig ekkert.

Þetta eru kannski ekki ný sannindi í eyrum margra, einhvern veginn virðist samfélagið alltaf vera að hvetja okkur til meiri hreyfingar. Hins vegar er alltaf hollt að minna sig á það hversu mikil áhrif hreyfing getur haft fyrir bæði líkama og sál og einblína ekki um of á útlitið í því samhengi, heldur miklu frekar lífsgæðin sem fylgja því að búa í hraustum líkama.