Mynd: Quoctrung Bui/NPR
Mynd: Quoctrung Bui/NPR

Eins og staðan er í dag eru mun fleiri karlar sem starfa sem forritarar en konur og voru til að mynda aðeins 11,2% forritara árið 2013 konur, samkvæmt einni könnun. Þetta hefur þó ekki alltaf verið svona. Lengi vel stóðu konur jafnfætis körlum á þessu sviði og voru fjölmargar konur frumkvöðlar í tölvunarfræði.

Á níunda áratugnum varð skyndileg breyting á þessu og hefur hlutfall kvennar í tölvunarfræði minnkað síðan, ólíkt því sem hefur gerst í öðrum fögum. En hvað gæti skýrt þetta skyndilega brottfall kvenna? Ein skýringin er sú að með tilkomu heimilistölvunnar hafi markaðsetningin miðað nær eingöngu að karlkyninu sem hafi orðið til þess að karlmönnum í faginu fjölgaði á meðan konum fækkaði.

Í þessu samhengi er áhugavert að skoða niðurstöður rannsóknar sem birtar voru í tímaritinu PeerJ nýverið. Í rannsókninni vildi rannsóknarhópurinn kanna hvernig horft var á vinnu forritara með tilliti til kyns.

Notast var við kóða sem sendir voru einu stærsta samfélagi opins hugbúnaðar í heiminum, GitHub. GitHub býr yfir stóru safni kóða sem notað er af 12 milljónum manna um allan heim. Notendur geta í gegnum GitHub óskað eftir ákveðnum kóða sem þá vantar fyrir verkefni og geta forritarar sent inn kóða fyrir verkefnið sem kallaður “pull request”. Í rannsókninni notaði rannsóknarhópurinn “pull requests” til að kanna hvort líklegra væri að kven- eða karlkyns forritarar fengju kóðana sína samþykkta.

Eftir að hafa skoðað hátt í þrjár milljónir “pull requests” kom í ljós að kóðar sem konur útbjuggu voru samþykktir í 78,6% tilfella en karla í 74,6% tilfella. Sagan endar þó ekki þar því tölurnar sem eru nefndar hér á undan eiga við þau tilfelli þar sem kyn forritara kom ekki fram. Ef kyn var tekið fram féll hlutfall samþykktra kóða kvenna úr 78,6% í 62,5% sem gefur til kynna mismunun vegna kyns eigi sér stað þrátt fyrir að kóðar kvenna kunni að vera betri en karla. Að því er kom fram í greininni átti sér einnig stað lækkun á hlutfalli samþykktra kóða hjá körlum ef kyn var tekið fram en áhrifin voru ekki jafn mikil.

Að svo stöddu hefur greinin ekki verið ritrýnd en hana má nálgast í heild sinni hér.