oitnb-01-800

Mannkynið er fjölbreytt og á það ekki síst við um kynhneigð okkar, við getum ýmist skilgreint okkur sem gagnkynhneigð, samkynhneigð, tvíkynhneigð, pankynhneigð eða asexúla, allt eftir því hverjum við löðumst að. Ýmsar rannsóknir hafa verið gerðar á kynhneigð fólks en nú hefur rannsókn verið birt þar sem rannsóknarhópurinn kemst að þeirri umdeilanlegu niðurstöðu að konur séu aldrei gagnkynhneigðar heldur ýmist tvíkynhneigðar eða samkynhneigðar.

Þátttakendur í rannsókninni voru 345 konur á ólíkum aldri og með ólíkan bakgrunn. Konurnar voru beðnar að svara því hver kynhneigð þeirra væri og horfðu síðan á myndbönd með kynferðislegu efni, bæði af konum og körlum. Á meðan konurnar horfðu á mynböndin könnuðu vísindamennirnir viðbrögð þeirra með því að mæla víkkun sjáldurs og viðbrögð kynfæra, svo sem púls og blóðflæði.

Í ljós kom að þær konur sem svöruðu því að þær væru gagnkynhneigðar sýndu að meðaltali mikla örvun þegar þær horfðu á myndbönd af bæði körlum og konum. Þetta var ólíkt þeim konum sem svöruðu á þá leið að þær væru samkynhneigðar en þær sýndu marktækt meiri örvun þegar þær horfðu á mynbönd af kvenfólki.

Í samtali við Pink News sagði Dr. Rieger, fyrsti höfundur greinarinnar, að “jafnvel þótt meirihluti kvenna skilgreini sig sem gagnkynhneigaðar sýnir rannsókn okkar greinilega að þegar kemur að því hvað kveikir í þeim eru þær annað hvort tvíkynhneigðar eða samkynhneigðar en aldrei gagnkynhneigðar”.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem kynhneigð hefur verið rannsökuð en fyrri rannsóknir hafa bent til þess að að meðaltali séu konur líklegri til að laðast að bæði körlum og konum. Gagnkynhneigðir karlar sýna aftur á móti frekar viðbrögð samsvarandi þeim sem samkynhneigðar konur gerðu í rannsókninni og sýna sterkari viðbrögð við konum er körlum.

Það má ætla að niðurstöður rannsóknarinnar, sem birtar voru í tímaritinu Journal of Personality and Social Psycology, verði mikið gagnrýndar, enda er ekki hægt að setja samasem merki á milli kynhneigaðar og örvunar.