Mynd: Extreme Tech
Mynd: Extreme Tech

Einn helsti gjaldmiðill vísindanna eru greinar birtar í ritrýndum tímaritum. Það kostar blóð, svita og tár, að birta grein í góðu tímariti svo í augum samstarfsfélaga er það skýr mælikvarði á ágæti einstaklingsins sem vísindamanns. Þegar greinin hefur svo verið birt skiptir líka miklu máli að fólk lesi hana og leggi traust á það sem þar kemur fram. Stærsta traustsyfirlýsingin er auðvitað þegar vitnað er í greinina í öðrum rannsóknum. Vísindafólk sem hefur verið lengi í geiranum hefur gjarnan sankað að sér mikilli sérþekkingu á þröngu sviði og því er algengt að fólk vitni í eigin greinar.

Í nýrri rannsókn sem kynnt var á fundi the American Sociological Association á síðasta ári birtast vísbendingar um að karlkyns vísindamenn séu líklegri til að vitna í sínar eigin rannsóknir en vísindakonur. Í rannsókninni var farið í gegnum birtingar 1,5 milljón rannsóknagreina frá árinu 1779-2011, og skoðaði rannsóknarhópurinn hvort og hversu oft höfundar vitnuðu í sínar eigin rannsóknir.

Í ljós kom að karlkyns vísindamenn vitnuðu að meðaltali 56% oftar í sínar eigin rannsóknir í samanburði við konur. Það sem kom svo rannsóknarhópnum enn frekar á óvart er að þetta hlutfall fer hækkandi eftir því sem rannsóknirnar eru nýrri en á síðastliðnum tveimur áratugum hefur þetta hlutfall hækkað uppí 70%. Það er í raun þversögn við þá staðreynd að vísindakonum er hlutfallslega að fjölga. Það gefur auga leið að konur hafa ekki vitnað mikið í eigin rannsóknir á 18. og 19. öld þar sem aðgengi þeirra að menntun og störfum innan vísindanna var mun takmarkaðra en það er í dag. En þrátt fyrir fjölgun kvenna innan vísindanna þá virðast þær ekki ná sama starfsframa og karlar, sem að hluta til er hægt að útskýra með þessum mun í tilvitnunum rannsókna kynjanna.

Þetta þýðir þó ekki að karlar séu upp til hópa hrokagikkir sem ekkert erindi hafa í vísindin, því langstærstur hluti tilvitnanna sem karlar gera í eigin rannsóknir eru réttar og augljósar. Þ.e.a.s. karlar eru ekki að vitna í eigin rannsóknir án þess að þar sé innistæða fyrir því. Það er því miður frekar á hinn veginn, konur vitna síður í sínar eigin rannsóknir jafnvel þó gild ástæða sé til. Getur verið að þessi skekkja sé hluti af því furðulega sjálfsmyndarmynstri sem við sjáum svo oft endurspeglast í kynjunum?

Þó þessi rannsókn gefi vísbendingar um skakka samkeppnisstöðu kynjanna þá er ekki endilega víst að hér sé öll sagan sögð. Í rannsókninni skoðaði hópurinn ekki höfunda sem einungis settu upphafsstafi sína, í stað þess að nota fullt nafn, á greinina. Þetta var gert rannsóknarhópnum til hægðarauka enda erfitt að ætla sér að grennslast fyrir um kyn allra sem hafa birt greinar á síðustu 200 árum eða svo. En þetta þýddi að af heildarúrtakinu voru einungis 56,4% greinanna notaðar. Sá möguleiki er fyrir hendi og jafnvel nokkuð sterkur möguleiki að konur noti frekar upphafsstafi sína á greinar en fullt nafn, einmitt vegna þess að þær vilja halda kyni sínu leyndu, það getur nefnilega ennþá verið erfitt að vera kona í vísindum.

Rannsókn þessi á enn eftir að fá birtingu í ritrýndu tímariti og þess vegna getum við enn sem komið er bara talað um vísbendingar. Það er þó rétt að doka við og velta fyrir sér hvort þessi skekkja, ef hún er raunveruleg, sé að halda konum frá því að ná langt í vísindum og hvað við getum mögulega gert til að leiðrétta þessa skekkju.