squat-toilet

Þó að klósettvenjur séu ekki oft umræðuefni meðal fólks vitum við öll að á flestum Vesturlöndum hefur fólk hægðir sitjandi á klósettinu. Margir sérfræðingar eru þó sammála um það að þessi aðferð sé ekki sú besta heldur sé betra fyrir líkama okkar að sitja á hækjum sér, líkt og tíðkast víða um heim.

Fólk sem býr í löndum þar sem fólk hefur hefur hægðir á hækjum sér þjáist til dæmis nánast aldrei af sarpabólgu (diverticulitis) og glímir sjaldan við gyllinæð, að sögn örverufræðingsins Giulia Enders. Ástæðan er talin vera sú að það hafa hægðir sitjandi á salerni skapar meiri þrýsting en það að sitja á hækjum sér. Auk þess er ristlinum ekki ætlað að tæma sig alveg í sitjandi stöðu, að sögn Enders.

Ísraelskur læknir, Dov Sikirov, gerði einmitt rannsókn á muninum á því að hafa hægðir á hækjum sér og sitjandi fyrir rúmum 10 árum síðan. Í ljós kom að þeir sem sátu á hækjum sér voru að meðaltali um 50 sekúndur að hafa hægði og sögðu að þeim liði eins og þeir hefðu náð að tæma þarmana vel. Þeir sem sátu á salerninu voru hins vegar að meðaltali um 130 sekúndur að hafa hægðir og upplifðu ekki að þeir hefðu náð að tæma þarmana eins vel og hinn hópurinn.

Samkvæmt þessum upplýsingum væri kannski ekki úr vegi að skipta út hinu hefbundna salerni og setja inn nýtt í anda þess sem sést á myndinni hér að ofan. Fyrir þá sem vilja ekki ganga svo langt mælir Enders með því að setja lítinn koll undir fæturnar og halla sér fram til þess að létta þrýstinginn. Hún nefnir einnig að hægt sé að hreinlega setjast á hækjur sér á klósettið sem gæti einnig nýst sem ágætis jafnvægisæfing.

Heimild: ScienceAlert