Rainbow_flag_breeze

Í tilefni af því að Bandaríkin hafa loksins lögleitt hjónaband samkynhneigðra í öllum fylkjum sínum er vert að minnast á nýlega rannsókn sem skoðaði áhrif kynhneigðar foreldra á börn sín. Rannsóknin skoðaði hvort munur væri á velferð barna eftir því hvort foreldrar þeirra voru samkyn- eða gagnkynhneigðir. Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í tímaritinu Social Science Research.

Rannsóknarhópur við University of Colorado Denver skoðaði fyrri rannsóknir um samkynhneigð pör og uppeldi. Hópurinn skoðaði þúsundir ritrýndra greina sem birtar voru frá 1977 til 2013 með það að markmiði að athuga hvort börn sem alin voru upp af samkynhneigðum foreldrum væru verr sett en þau sem áttu gagnkynhneigða foreldra. Niðurstöðurnar staðfestu að kynhneigð foreldra skiptir engu máli þegar kemur að félagslegum og hegðunarlegum áhrifum.

Vísindamennirnir könnuðu einnig hvernig viðhorf breyttust gagnvart samkynhneigðum foreldrum á tímabilinu með því að skoða hvernig vísindagreinarnar vísuðu í aðrar greinar. Ljóst var að ekki voru allir á sama máli um áhrif uppeldis samkynhneigðra para á áttunda áratugnum en með tímanum breyttist viðhorfið. Við aldamótin mátti sjá að sterk samstaða ríkti meðal vísindamanna um að börn sem alin eru upp af samkynhneiðgum pörum upplifi engin neikvæð félagsleg eða hegðunarleg áhrif í samanburði við börn gagnkynhneigðra foreldra.

Rannsóknir sem þessar eru mikilvægur liður í því að útrýma fordómum sem samkynhneigðir verða fyrir og vona vísindamennirnir að niðurstöður þeirra muni hjálpa réttindabaráttu samkynhneigðra.