pink pill

Eftir langt og strangt ferli hefur lyfjafyrirtækið Sprout fengið leyfi hjá bandaríska lyfja- og matvælaeftirlitinu til að setja á bandarískan markað kynörvandi lyf fyrir konur, Addyi. Þetta er þó ekki alveg fullur sigur þar sem læknar og lyfjafræðingar sem munu handfjatla lyfið þurfa lyfið þurfa fyrst að hljóta sérstaka þjálfun, að beiðni eftirlitsins.

Lyfið hefur verið kallað bleika pillan eða kvenna víagra en þó er ekki um alveg sambærileg lyf að ræða. Addyi er notað til að meðhöndla kyndeyfð en ekki til að viðhalda kynörvun þegar henni hefur verið náð. Þess vegna er lyfið ekki pilla sem tekin er fyrir hvert skipti sem kynlíf er stundað heldur mun sá sem notar lyfið þurfa að taka það daglega og lyfið á að hafa áhrif á hormónaflæði í heilanum sem aftur eykur löngun einstaklingsins í kynlíf.

Lyfið er ansi umdeilt og skiptist fólk í tvær fylkingar. Annars vegar eru það þeir sem telja að tímabært sé að koma lyfi á markað sem getur hjálpað konum sem glíma við kyndeyfð. En vandi þeirra kvenna er lítt ræddur og vonir standa til að með lyfinu opnist dyr fyrir konur að ræða sín vandamál. Það sama átti sér stað þegar viagra kom á markað og karlmenn sáu loks tækifæri til að ræða risvandamál og fá við þeim lausnir.

Andstæðingar lyfsins draga virkni þess í efa, enda er kynlöngun fyrirbæri sem ekki hefur verið að fullu skilgreint. Sérfræðingar eru ekki sammála um hvaða hormón og hvaða heilastöðvar það eru sem stjórna kynlöngun. Þar sem lyfið getur valdið aukaverkunum á borð við lágan blóðþrýsting, ógleði og auknar líkur á yfirliði spyrja sérfræðingar hvort áhrif lyfsins vegi upp þær aukaverkanir sem gætu komið til.

Líklega mun sagan leiða í ljós hvort lyfið hefur tilætluð áhrif og hvort þau vegi þá upp mögulegar aukaverkanir en eitt er víst að ef umræðan um kyndeyfð, kvenna jafnt sem karla, eykst í kjölfar þess að lyf sem þetta kemst á markað þá er mikilvægum árangri náð.

Tengdar fréttir: Bremelanotide – lyf til að auka kynhvöt