Verkfræðinemi við MIT greindist í miðju námi sínu með æxli í heila. Það fyrsta sem fer líklega í gegnum hugann við slíkar aðstæður er líklega ótti, en næsta hugsun Stevens Keating, var sennilega ekki sameiginleg með mörgum öðrum sjúklingum í þessari stöðu. Hann ákvað að nýta sjúkdóminn til upplýsinga fyrir sjálfan sig og lét m.a. taka upp skurðaðgerðina svo hann gæti horft á hana síðar meir.

Meðfylgjandi eru myndband þar sem aðgerðinni sem tók um 10 klst er pakkað saman í u.þ.b. 2 mínútur. Aðgerðin var tekin upp af hjúkrunarfræðingum sem voru viðstaddar aðgerðina. Steven safnaði einnig miklu magni af gögnum um sjúkdóminn sinn og sjálfan sig til að skilja sjúkdóminn betur og afla upplýsinga fyrir fleiri vísindahópa. Hann safnaði öllum rannsóknarniðurstöðum sem og raðgreiningum á erfðaefni sínu og jafnvel saursýnum sem tekin voru meðan hann var í lyfjameðferð til að meta áhrif meðferðarinnar á bakteríuflóru meltingarvegarins.

Myndbandið er kannski ekki fyrir viðkvæma, en fyrir áhugasama þá er það eiginlega alveg magnað. Upp

Rannsóknin skilaði Steven ekki einungis betri skilningi á sjúkdómnum heldur vonast hann til að með þessu veki hann lækna og annað heilbrigðisstarfsfólk til umhugsunar um hvernig upplýsingar um sjúkdóma geta hjálpað sjúklingum að takast á við þá. Eins og hann sagði sjálfur þá er ólíklegra að fólk hræðist eitthvað sem það þekkir vel.

Síðastliðinn vetur hélt Steven Keating fyrirlestur um rannsókn sína á sjálfum sér við MIT sem hægt er að sjá á meðfylgjandi myndbandi sem birtist á fréttasíðu MIT. Þar lýsir hann því hver tildrög rannsóknarinnar voru og hvernig honum tókst að búa til eitthvað jákvætt úr ansi neikvæðri lífsreynslu. Á fréttasíðunni Vox má einnig lesa sér betur til um málið.