Peanuts

Hnetuofnæmi er það ofnæmi sem veldur flestum dauðsföllum í heiminum, það eldist sjaldan af fólki og getur verið ansi hvimleitt fyrir þá sem af því þjást. Þeir hljóta því að gleðjast við þessar fréttir en tilraun sem gerð var á 60 börnum í Melbourne Ástralíu gefur til kynna að hægt sé að afnæma fólk með hnetuofnæmi með hjálp svo kallaðra probiotics, stundum kallaðar vinveittar bakteríur, en þær eru hluti af heilbrigðri bakteríuflóru líkamans.

Hluti barnanna fékk jarðhnetuprótín í smáskömmtum ásamt bakteríunni Lactobacillus rhamnosus. Viðmiðunarhópurinn fékk einungis hnetuprótín. Prótínskammturinn var í upphafi tilraunarinnar mjög lítill en stækkaði svo jafnt og þétt yfir það 18 mánaða tímabil sem tilraunin stóð, eins og þekkt er við afnæmingar. Í lok tilraunarinnar virtust 81,2% barnanna sem fengu ónæmisvaka og Lactobacillus rhamnosus hafa losnað við hnetuofnæmið. Á meðan aðeins 3,6% viðmiðunarhópsins fékk sömu niðurstöðu. Enn á þó eftir að staðfesta hvort batinn er enn til staðar eftir að meðferð hefur verið hætt í einhvern tíma.

Stjórnandi rannsóknarinnar mælir þó ekki með að fólk prófi þessa aðferð heima, þar sem hún hefur ekki verið prófuð að fullu og vegna þess að ofnæmisviðbrögð geta komið fram við meðferð.

Fréttatilkynningu rannsóknarhópsins um efnið má lesa hér.