vestmannaeyjar

Þegar haldið er til sjós, hvort sem er til vinnu, skemmtunar eða eingöngu til að komast milli staða, getur fólk upplifað alls kyns óþægindi. Óþægindi á borð við svima og ógleði hafa verið tengd við þá staðreynd að skynjun augna og eyrna fara ekki saman við hreyfingarnar sem líkaminn skynjar.

Nokkuð hátt hlutfall fólks, eða um 30%, upplifir mjög alvarleg einkenni sjóveiki sem lýsa sér með miklum svima, ógleði og uppköstum sem og köldum svita. Þó sjóveiki sé ekki enn að fullu útskýrt fyrirbæri hefur vísindahópi við Imperial College London tekist að finna leið sem kemur í veg fyrir sjóveiki. Vonir vísindahópsins standa til að bráðum verði hægt að kaupa tæknina í hvaða apóteki sem er eða jafnvel bara sem app í símann, til að koma í veg fyrir sjóveiki.

Tæknin byggir á því að senda rafboð inní heilann í gegnum höfuðkúpuna. Þar hafa rafboðin áhrif á þær stöðvar heilans sem vinna úr skynjunum okkar og dempa þannig þessi misvísandi boð sem heilinn er að fá frá augum, eyrum og hreyfiskynjurum líkamans.

Í rannsókn hópsins var þessari meðferð beitt á einstaklinga sem síðan fóru í nokkurs konar hermi. Í herminum er líkt eftir þeim aðstæðum sem myndast til að mynda á sjó og valda sjóveiki. Í ljós kom að eftir meðferð með rafboðunum voru minni líkur á því að upplifa sjóveiki eða annars konar óþægindi.

Nú þegar hefur vísindahópurinn hafið samræður við fyrirtæki í tækniiðnaði um samvinnu vð smíði á handhægu tæki sem annað hvort væri hægt að nálgast í apótekum eða jafnvel hægt að fá í símann sinn. Þetta myndi án efa bjarga mörgum brottfluttum Vestmannaeyingum frá heimferðakvíða.