Erfðabreytt matvæli hafa valdið usla, óvissu og vantrausti meðal almennings nánast síðan hugmyndin skaut fyrst upp kollinum. Það var árið 1994 sem fyrsti erfðabreytti tómaturinn var kynntur almenningi. Hann átti að vera bragðbetri en aðrir tómatar sökum seinkunnar á þroska hans. Það er skemmst frá því að segja að sú erfðabreyting skilaði ekki tilskildum árangri og trú fólks á erfðabreytingar lá í dvala um sinn.

Erfðabreytt til að auka þol plöntunna

Stuttu síðar, árið 1996 kynnti fyrirtækið Monsanto erfðabreyttan maís og hóf á honum sölu. Maísinn var þeim eiginleika gæddur að þola illgresiseyðinn Roundup, sem reyndar er framleiddur af sama fyrirtæki. Sama ár var kynntur til sögunnar erfðabreyttur maís sem bar í sér bakteríugen, til varnar plöntunni.

Af þeim erfðabreytta maís sem til er á markaðnum í dag, eru þessar tvær breytingar algengastar. Annars vegar er það þol plantnanna gegn illgresiseyði og hins vegar er það þol plantnanna gegn skordýrum. Þá hefur geni úr bakteríunni Bacillus thuringiensis, verið komið fyrir í erfðaefni maísins. Þetta tiltekna gen skráir fyrir eitri sem skordýrin þola ekki.

Leynast hættur í erfðabreyttum matvælum?

Alveg síðan fyrstu erfðabreyttu plönturnar voru kynntar hefur almenningi staðið uggur af þeim.  Tækninýjungarnar sem gera vísindamönnum kleift að framkalla slíkar breytingar eru flóknar og ekki hlaupið að því að finna skýringar á því hvernig þær eru framkvæmdar eða hvaða afleiðingar það getur haft.

Öllu sem beint er að almenningi til neyslu skal taka með varúð. Þetta hefur einmitt verið raunin með erfðabreytt matvæli. Matvæli sem átt hefur við á þennan hátt sæta sérstökum reglugerðum hjá matvælaeftirlitum víða um heim. Umhverfisstofnanir hafa auga með ræktun slíkra plantna utandyra og svona mætti lengi telja. Allur skal varinn góður, að minnsta kosti þar til sannað þykir að engin ógn stafar af plöntunum.

Nú, þegar erfðabreytt matvæli hafa verið á markaði þetta lengi, hafa ótal greinar verið birtar þar sem viðfangsefnið eru erfðabreyttar plöntur til manneldis. Þær hafa hver um sig sýnt mynd af því hvaða ávinning eða tap er hægt að finna við ræktun erfðabreyttra matvæla.

20 ár af erfðabreytingum – 6000 rannsóknir.

Ein rannsókn á einni plöntu á einum stað og á einum tíma gefur þó ekki endilega þá heildarmynd sem er nauðsynleg til að geta metið hvort raunverulegur ávinningur fæst af því að rækta erfðabreytt matvæli.

Samantektarrannsókn sem unnin var af fjórum ítölskum vísindamönnum var birt í vísindaritinu Scientific Reports snemma á síðasta ári. Þar tóku höfundar saman rannsóknir síðastliðinna tuttugu ára á erfðabreyttum maís. Alls lágu undir 6000 rannsóknir sem teknar voru hér saman í eina stóra yfirlitsgrein til að skoða í eitt skipti fyrir öll hvort erfðabreytingar á maís skiluðu tilskyldum árangri.

Ólíkt öðrum yfirlitsgreinum sem skrifaðar hafa verið um erfðabreyttar plöntur til matvælaræktunar hingað til þá lá ræktun um allan heim undir. Auk þess var tilgangur samantektarinnar að meta alhliða áhrif erfðabreytinganna, og reyna þannig að fá skýra mynd af því hvort erfðabreytingar séu hagkvæmar eða ekki.

Betri heimtur

Helstu niðurstöður greinarinnar voru þær að með notkun á erfðabreyttum maís fást meiri heimtur, samanborið við korn sem ekki hefur verið erfðabreytt. Með öðrum orðum, þeir bændur sem notast við erfðabreyttar plöntur fá meiri uppskeru og þar af leiðandi meiri hagnað.

Betri heimtur stafa fyrst og fremst af því að það er minna tap af plöntum. Það er því ekki svo að erfðabreyttar plöntur vaxa hraðar eða meira. Plönturnar sem eru erfðabreyttar falla síður fyrir illgresiseitri eða skordýrabitum en þær sem ekki eru erfðabreyttar.

Eins og nefnt var hér að framan hefur erfðabreyttum maís verið gefin hæfileikinn til að þola eitur sem notað er á ræktunarlandið. Þannig geta bændur notað illgresiseyði til að drepa samkeppnisplöntur, án þess að hafa áhyggjur af því að það hafi áhrif á uppskeruna.

Sama má segja um maístegundir þar sem bakteríugeni hefur verið komið fyrir. Genið skráir fyrir bakteríueitri sem hefur áhrif á arðræningja; skordýr. Þau deyja stuttu eftir að hafa étið hluta af plöntunni. Þetta þýðir að skordýrunum fækkar og þau sem koma að til að éta ná ekki að fjölga sér.

Minni hætta á eitruðum matvælum.

Ein óvænt en mjög ánægjuleg aukaverkun af erfðabreytinunum var sú að að meðaltali finnst minna af eiturefnum í plöntunum. Eiturefnin, eins og mycotoxín, koma til vegna vaxta sveppa eða annarra örvera á eða í plöntunum. Þessi eiturefni geta verið hættuleg mönnum, sé þeirra neytt í miklu magni og þess vegna er virkt eftirlit þar sem þessi efni eru mæld áður en matvælin eru seld á markað.

Sennilega má rekja þessa aukaverkun til þess að plönturnar sem um ræðir eru einfaldlega heilbrigðari. Þær sem ekki verða fyrir árás skordýra eiga auðveldara með að berjast við annars konar skaðvalda líka eins og t.d. sveppi.

Það má í raun líkja þessu við mannslíkamann. Flest þekkjum við það að álag og stress hefur oft í för með sér kvefpestir eða flensu. Það er ekki vegna þess að þessar pestir eiga uppruna sinn í stresshormónum sem við seytum útí líkamann. Það er einfaldlega vegna þess að þegar mikil streita er til staðar eru varnir líkamans, ónæmiskerfið, verr í stakk búnar til að stöðva árásir veira og baktería þegar þær komast inní líkamann.

Það sama gerist í plöntum. Þær hafa einnig ónæmiskerfi sem sér um að verja þær gegn örverum sem geta valdið þeim ama. Við stöðugar árásir skordýra er mun erfiðara fyrir þær að halda þessum vágestum í skefjum.

Almennir ávinningar af erfðabreyttum matjurtum

Samantekið má fullyrða að nýting erfðabreyttra maís plantna til ræktunar er hagkvæmari og öruggari með tilliti til mycotoxína. Þol plantnanna gegn illgresiseyðum hefur verið gagnrýnt á þeim forsendum að eyðirinn getur safnast fyrir í umhverfi plantnanna. Slík uppsöfnun hefur þó ekki bein áhrif á heilsu manna þar sem slík eiturefni miða á líffræðilega ferla sem fyrirfinnast í plöntum en ekki í mannslíkamanum.

Það má þó alltaf deila um það hvort erfðabreytingar á matvælum séu réttlætanlegar ef þær eiga helst að nýtast þeim heimshlutum sem nú þegar eru þekkt fyrir matarsóun og ofneyslu. Ávinninga af erfðabreytingum ætti auðvitað frekar að nýta sem tæki til að auka lífsgæði þeirra sem minnst njóta.


Greinin birtist fyrst í prentuðu eintaki og vefsíðu Stundarinnar.