screen-shot-2017-04-17-at-16-21-00

Það að velja sér góða prófílmynd er fyrir suma hægara sagt en gert. Til þess að flækja málið benda niðurstöður rannsóknarhóps við University of New South Wales í Ástralíu til þess að við séum sjálf ekki best í að velja góða mynd, þvert á móti sé betra að láta einhvern ókunnugann velja myndina fyrir okkur.

Mannfólk er fljótt að mynda sér skoðun á öðrum við fyrstu sýn sem getur skipt máli, til dæmis þegar fólk er í atvinnuleit eða leitar sér að maka í gegnum smáforrit. Það getur því skipt máli hvaða mynd er notuð en rannsóknin er sú fyrsta sem kannar hvernig fólk velur mynd af sér fyrir samfélagsmiðla.

102 nemar voru beðnir að skoða 12 myndir af sér og velja þær tvær sem þeir væru líklegastir til að nota á samfélagsmiðlum, stefnumótaforritum og atvinnuleitarsíðum. Þátttakendur voru síðan beðnir um að gera slíkt hið sama fyrir annan einstakling í rannsókninni sem valinn var að handahófi og þeir þekktu ekki fyrir.

Ókunnugir einstaklingar, aðrir en þátttakendur, voru síðan beðnir um að meta myndirnar út frá því hversu aðlaðandi, áreiðanleg, áhrifamikil, sjálfsörugg og hæf manneskjan á myndinni virtist vera. Í ljós kom að viðbrögð ókunnugra við þeim myndum sem ókunnugir einstaklingar völdu fyrir aðra fengu jákvæðari viðbrögð en ef manneskjan sjálf valdi myndina.

Rannsóknarhópurinn telur að mikilvægt að í framtíðinni sé kannað frekar hvað það er sem veldur því að einstaklingar velji ekki bestu myndirnar sjálfir.

Þessar niðurstöður eru þvert á nýlega rannsóknir sem bentu til þess að fólk væri gjarnt á að velja myndir sem sýndu sig í betra ljósi.

Niðurstöðurnar voru birtar í tímaritinu Cognitive Research: Principles and Implications.