Mynd: The Huffington Post
Mynd: The Huffington Post

Við þekkjum flest pressuna sem fylgir komandi prófatíð og margir eru jafnvel strax farnir að kvíða komandi vökunóttum. En örvæntið ekki, því ný rannsókn gefur til kynna að besta leiðin til að muna er einmitt að sofa.

Í rannsókninni sátu 72 sjálfboðaliðar fyrirlestra um efni sem þeir þekktu ekki fyrir. Eftir fyrirlesturinn voru þátttakendur beðnir um að gera eitt af þrennu, leggja sig, horfa á bíómynd eða rifja upp innihald fyrirlestursins. Síðan var lagt fyrir þá próf og í ljós kom að þeim sem höfðu lagt sig eftir fyrirlesturinn gekk best á prófinu.

Að vísu var munurinn á milli þeirra sem lögðu sig og þeirra sem horfðu á mynd ekki tölfræðilega marktækur þegar tilraunin var endurtekin viku seinna. En þó þessi litla tilraun sé ekki nægjanleg til að skipa öllum námsmönnum í rúmið þá er þetta ekki í fyrsta skipti sem rannsóknir sýna gildi góðrar hvíldar.

Þess vegna viljum við eindregið minna komandi próftakara á að passa uppá að hvíla sig á meðan þessum álagstíma stendur og mögulega taka frekar stutta kríu rétt fyrir próf í staðinn fyrir að lesa glósurnar yfir í hundraðasta skipti.