Mynd: Organic Spa Magazine
Mynd: Organic Spa Magazine

Sú staðreynd að fitusnauðar matvörur séu betri en fitumiklar matvörur er ýtt að neytendum, til dæmis bara með orðum eins og léttmjólk. Lengi hefur því verið haldið fram að allar fituminni vörur séu betri en þær sem innihalda mikla fitu. Nú hafa margar vísindarannsóknir komið fram þar sem þeirri hugmynd, að fitusnauðarvörur séu hollari, er gagnrýnd.

Ástæða þess að fólki er ráðlagt að forðast feit matvæli er sú að hörð fita er talin hafa bein áhrif á magn kólesteróls í líkamanum. Áhöld eru um það hvort takmörkun á fituríkum vörum hefur raunverulega skilað þeim árangri að lækka kólesteról í blóði. Vissulega hefur þeim einstaklingum fækkað sem mælast með hátt kólesteról en á sama tíma eru líka fleiri að taka kólesteróllækkandi lyf, sem eru þá líklegast að virka sem skyldi ekki satt?

En þó dýrafita, eins og fita í mjólkurvörum, sé kannski ekki að hafa jafnmikil áhrif á kólesteról og talið var, er þá ekki samt bara í góðu lagi að sneiða framhjá henni? Upp að vissu marki er auðvitað allt í lagi að halda sig frá fituríkum vörum, en fitusnauðarvörur eru samt sem áður ekki alltaf betri kostur. Það sem gerir fitusnauðar vörur varhugaverðar er það að til að varan haldi gæðum sínum, áferð og bragði, þá þurfa framleiðendur að bæta upp fyrir fituleysið og það er oft gert með kolvetnum, til dæmis sykri. Þannig að þegar fitusnauða varan er valin, fram yfir vöruna sem inniheldur eðlilegt magn af fitu, er neytandinn oft að bæta við fleiri hitaeiningum í formi sykurs. Sykur getur seint talist hollur í óhófi og auk þess er fitan, sem margir vanda sig við að sleppa, líka nauðsynleg fyrir líkamann.

Það er því kannski ekki hægt að dæma vöru eingöngu útfrá því hvert fituinnihald hennar er. Lykillinn að hollu og góðu matarræði er miklu frekar að vera meðvitaður um hvað maður er að borða og einbeita sér ekki aðeins að því að sneiða framhjá fitu.

Umfjöllun The Washington Post um málið má lesa hér.