content-1469447690-graham-two

Þrátt fyrir að umferðaröryggi sé sífellt bætt er staðan enn svo að fjöldi fólks lætur lífið í bílslysum ár hvert. Þetta skýrist að miklu leyti að því að líkamar okkar þola árekstra afskaplega illa. En hvað ef svo væri ekki, hvernig myndi “bílslysaheld” manneskja líta út?

Ef marka má niðurstöður samstarfs listamannsins Patricia Piccini og Samgönguslysanefndar (TAC) Viktoríufylkis Ástralíu væri sjónin í það minnsta ekki fögur miðað við útlistkröfur nútímans. Líkt og sjá má á myndinni sem fylgir fréttinni og myndbandinu hér að neðan væri slík manneskja, sem fengið hefur nafnið Graham, nokkuð ólík því sem við þekkjum í dag. Samkvæmt túlkun Piccini má til dæmis má nefna að Graham hefði engan háls, höfuðkúpan væri þykkari en hjá nútímamannfólki og eyru og nef væru flöt.

Þó Graham sé listaverk gegnir hann samt áhugaverðu hlutverki í því hvernig við lítum á bílslys. Framkvæmdastjóri TAC, Joe Calafiore, benti til dæmis á í samtali við Guardian að Graham geti hjálpað okkur að skilja hvers vegna sé svo mikilvægt að bæta vegakerfi til að geta varist eigin mistökum í umferðinni.

Eins og stendur er Graham staddur í Ástralíu þar sem hann mun ferðast um landið. Við á Íslandi getum þó fengið að kynnast honum betur og því hvernig hann er betur til þess fallinn að lifa af bílslys en við í myndbandinu hér að neðan sem og á vefsíðu hans þar sem hægt er að skoða hann gagnvirkt frá öllum hliðum.