Mynd: Matrix
Mynd: Matrix

Déjà vu, eða endurtekningarupplifanir, eru nokkuð sem flestir kannast við en hingað til höfum við lítið vitað um af hverju eða hvernig það á sér stað. Á Alþjóðlegu minnisráðstefnunni sem fór fram í Budapest nýverið kynntu vísindamenn við University of St Andrews þó niðurstöður rannsóknar sem varpa loks ljósi á þetta dularfulla fyrirbæri.

Það var Akira O’Connor sem leiddi rannsóknina sem fólst í því þróa aðferð til að framkalla déjà vu. Þátttakendur fengu að heyra orð sem öll tengdust á einhvern hátt án þess þó að orðið sem tengdi þau saman væri gefið upp. Til dæmis voru þeim gefin orðin rúm, koddi, draumur og nótt en ekki orðið svefn.

Þátttakendur voru næst spurðir hvort þeir hafi heyrt orð sem byrjaði á “S” og svöruðu að sjálfsögðu neitandi. Þetta var gert í þeim tilgangi að þátttakendur gerðu sér grein fyrir að þeir hafi ekki heyrt orðið svefn. Nokkru seinna voru þátttakendur síðan spurðir hvort þeir hafi heyrt orðið svefn í upptalningunni. Flestum leið þá eins og þeir hafi í raun heyrt það, þrátt fyrir að vita að svo var ekki og upplifðu því einskonar déjà vu.

Til að kanna hvað væri að gerast í heilanum á meðan á þessu stóð voru þátttakendur settir í stafræna segulómun þar sem fylgst var með því hvaða svæði heilans voru virk. Í ljós kom að virkustu svæðin voru í framheilanum, sem á meðal annars þátt í ákvarðanatöku, en ekki þau svæði sem eru tengd minni.

Þetta þykir rannsóknarhópnum benda til þess að svæði í framheilanum fylgist í raun með minni okkar um leið og það er spilað aftur í þeim tilgangi að kanna hvort eitthvað fari úrskeiðis. Ef óregla kemur fram getur því verið að svæði í framheilanum virkist og fram komi déjà vu.

Aðeins er um tilgátu að ræða á þessu stigi og mun frekari rannsókna vera þörf til skera úr um hvað liggur þarna að baki en það hefur líklega ekkert að gera með Matrix.