Mynd: NASA/JPL-Caltech
Mynd: NASA/JPL-Caltech

Þeir sem fylgdust með blaðamannafundi Nasa í gær, eða bara fjölmiðlum yfirleitt, vita nú þegar af þeirri von sem hefur kviknað meðal stjörnufræðinga um að líf í geimnum gæti verið fundið. Enn sem komið er höfum við ekki náð svo langt að finna lífveru. Hins vegar virðast hafa fundist plánetur þar sem líf gæri þrifist í aðeins 40 ljósára fjarlægð.

Í 40 ljósára fjarlægð finnst nefnilega rauð dvergstjarna, sem hefur fengið nafnið TRAPPIST-1. TRAPPIST-1 er ekki jafn heit og sólin okkar og stærð hennar er líklega aðeins tíund af stærð sólar. Á sporbaug um stjörnuna ferðast 7 plánetur sem allar eru að svipaðri stærð og jörðin. Þessar plánetur hafa fengið nöfnin TRAPPIST-1b, c, d, e, f, g og h en h er staðsett lengst frá stjörnunni.

Stjörnufræðingar telja líklegt að þrjár þessara pláneta geti geymt vatn í fljótandi formi, það eru pláneturnar TRAPPIST-1e, f og g. Enn sem komið er, er ekki vitað hvort vatn sé að finna á þessum plánetum, en með hjálp risastjörnukíkja sem staðsettir eru víðsvegar um heiminn hefur vísindamönnum tekist að skilgreina nokkurn veginn aðstæður á plánetunum. Þar má meðal annars nefna stærð, hitastig og efnasamsetningu plánetanna.

Nú bíða stjörnufræðingar niðurstaðna úr Hubble sem þegar hefur verið beint að TRAPPIST-1 sólkerfinu til að meta hvort einhver plánetanna sé með lofthjúp. Í náinni framtíð munum við svo væntanlega geta notað enn stærri og nákvæmari stjörnukíkja til að skilgreina þessar spennandi plánetur enn frekar. Ennþá er ekki raunhæft að ætla sér að ferðast til sólkerfisins, en enginn veit hvað framtíðin ber í skauti sér.

Fyrir þá sem vilja afla sér enn frekari upplýsinga um þetta merka fyribæri, bendum við á stjörnufræðivefinn.