Mynd: NYU Langone Medical Center
Mynd: NYU Langone Medical Center

Það verður varla lögð næg áhersla á mikilvægi líffæragjafa. Líffæragjafir bjarga mannslífum á hverjum degi en líffæragjafirnar eru missýnilegar. Andlitságræðslur eru sennilega þær líffæragjafir sem sjást best, en ein slík aðgerð var einmitt framkvæmd í ágúst síðastliðnum í NYU Langone Medical Center

Aðgerðin er sú flóknasta af þessu tagi, til þessa, sem framkvæmd hefur verið í heiminum. Líffæraþeginn heitir Patrick Hardison og slasaðist illa við störf sín sem slökkviliðsmaður árið 2001. Við slysið hlaut Patrick alvarleg brunasár á nánast öllu höfðinu, sem leiddu til þess að hann missti augnlokin, eyrun, hluta af nefi sem og andlitshár. Það þarf vart að tíunda hversu miklar afleiðingar slysið hefur haft á líf hans.

Árið 2012 komst mál Patricks inná borð Eduardo D. Rodriguez sem áður hefur framkvæmt flóknar andlitságræðslur. Tók Eduardo þá að sér þetta mikilvæga verkefni m.a. með því að safna saman heilbrigðisstarfsfólki sem síðar tók svo þátt í að græða nýtt andlit á patrick. Alls tóku um 100 manns þátt í aðgerðinni sem stóð yfir í 26 klukkustundir.

Í aðgerðinni tókst að græða augnlok, ásamt hreyfivöðvum tengdum þeim á sjúklinginn. Auk þess tókst að græða eyru og eyrnagöng, endurbyggja andlitsdrætti og búa til samhverfu úr nýja andlitinu. Til að undirbúa aðgerðina notaðist starfsfólkið við þrívíddarprentaðar eftirlíkingar af sjúklingnum, sem hægt var að smíða fyrir tilsilli tölvusneiðmynda sem teknar voru fyrir aðgerðina.

Í dag heilast Patrick vel og er hann á góðum batavegi. Stuttu eftir aðgerðina hafði hann náð stjórn á því að blikka augunum og hárvöxtur sem og skeggvöxtur hófst. Nú tekur við endurhæfingarferli þar sem Patrick þarf að læra að tala og kyngja upp á nýtt sem og fleiri daglega hluti sem hann hefur ekki getað gert eftir slysið. Sár missir fjölskyldu líffæragjafans hefur því gefið Patrick og mörgum fleiri líffæraþegum færi á að takast á við nýtt líf.