BrainRhythm

Einhverjir muna kannski eftir laginu hans Bubba um stóru strákana sem fengu raflost. Í því lagi var sungið um fólk sem glímdi við geðveilu og var raflostið eitt af meðferðarúrræðunum. Ekki skal fullyrt um hvaða vísbendingar lágu að baki þessari meðferð en nýlega birtist grein í Cortex þar sem áþekk aðferð er notuð til að örva sköpunargáfu. Vonir standa svo til að hægt verði að nota þessa sömu aðferð sem meðferðarúrræði við þunglyndi.

Rannsóknin var unnin við University of North Carolina og var stjórnað af Flavio Frohlich. Frohlich fékk 20 heilbrigða sjálfboðaliða, setti 3 elektróður á höfuð þeirra, tvær framan á höfðið og eina á hnakkann. Þátttakendur fengu svo rafstraum af tíðninni 10 Hz. Með þessu var ætlast til að hafa áhrif á svokallaðar alfa bylgjur heilans, en þær eru af tíðninni 8-12 Hz og eru í gangi í heilanum í hvíld. Þetta þýðir að alfa bylgjurnar sjást til dæmis við slökun eða hugleiðslu.

Það sem heilinn gerir meðan hann er í hvíld er mjög mikilvægur partur af hlutverki hans, þegar ekkert annað er að trufla eins og utanaðkomandi örvun. Hugmynd Frohlich og samstarfsfélaga er að ef þessi hvíldarstarfsemi fer úr skorðum getur það orsakað geðsjúkdóma á borð við þunglyndi.

Þátttakendurnir fengu allir bæði rafstraum í 5 mínútur annars vegar og svo 30 mínútur hins vegar, án þess að vera upplýstir um hvora meðferðina þeir undirgengust. Á meðan á meðferðunum stóð voru þeir einnig látnir taka staðlað próf sem miðar að því að prófa sköpunargáfu, Torrance Test of Creative Thinking. Þegar prófin voru metin kom í ljós að sköpunargáfan jókst um 7,4% að meðaltali við 30 mínútna meðferðina. Ef þátttakendur voru meðhöndlaðir með 40 Hz rafstraum komu ekki fram nein áhrif í sköpunargáfuprófinu, en 40 Hz örva svokallaðar gamma bylgjur sem koma fram í heilanum þegar utanaðkomandi örvun er til staðar.

Vonir vísindahópsins standa til að hægt verði að nota þessa meðferð til að hjálpa fólki sem glímir við geðraskanir. Mögulega sjá einhverjir fram á að hægt verði að búa til betri listamenn með því að örva sköpunargáfuna en það er ekki tilgangurinn með rannsókninni og bendir Frohlich á að langtímaáhrif meðferðarinnar eru ekki þekkt. M.ö.o. þá er tilgangurinn ekki að gefa ákveðnu fólki forskot í listaheiminum heldur að hjálpa þeim, sem eiga við erfiðleika að stríða, að komast á réttan kjöl í lífinu.

Hér má lesa fréttatilkynningu háskólans um málið.