Það er ekki að undra að margir hafa velt því fyrir sér hvernig hið fullkomna matarræði er samansett. Í nútímasamfélagi leynast í hverju horni áróðurskenndar auglýsingar um hollustu eða óhollustu kókosolíu og avókadó. Þurfum við raunverulega eitt skot af hveitigrassafa á dag, hrært saman við lífræntræktaða ólívuolíu áður en við smellum hrárri nautasteik á diskinn okkar sem aldrei hefur svo mikið sem heyrt minnst á hvítt hveiti?

Til að svara þeirri spurningu, eða kannski fjölmörgum slíkum spurningum, réðst rannsóknarhópur við Stanford Medicine í yfirgripsmikla rannsókn þar sem lágkolvetna og fitusnautt matarræði var borið saman.

Í rannsókninni var 609 sjálfboðaliðum skipt tilviljanakennt í tvo hópa, annar hópurinn hélt sig við fitusnautt fæði meðan hinn var settur á lágkolvetnafæði. Tilraunatíminn var 12 mánuðir og fæðusamsetningin var búin til af þátttakendunum sjálfum, með leiðbeiningum frá rannsóknaraðilum.

Í upphafi rannsóknarinnar var erfðaefni þátttakenda skoðað m.t.t. gena sem skrá fyrir prótínum sem taka þátt í niðurbroti kolvetna eða fitu. Að auki var grunnlína hormónsins insúlíns mæld í hverjum og einum. Allt þetta var gert til að skoða hvaða þættir það gætu verið sem hefðu áhrif á árangur ákveðinna lífsstílsbreytinga.

Að 12 mánuðum liðnum höfðu hóparnir að meðaltali misst 5,3 og 6 kíló. Sumir þátttakendur í báðum hópum bættu á sig, meðan aðrir þátttakendur misstu verulegan fjölda kílóa. Hvorki lágkolvetna né fitusnautt fæði virtist betra hvað varðaði þyngdartap.

Til að reyna að skýra hvers vegna ákveðnir einstaklingar léttust meðan aðrir bættu á sig var kafað ofan í erfðagögn þátttakenda. Því miður virtist hvergi vera tenging á milli ákveðinnar erfðaþátta og þyngdartaps, hvorki meðal þeirra sem skáru niður fitu, né hjá þeim sem minnkuðu við sig kolvetni.

Þegar grunnlína insúlíns var borin saman milli hópa og innan hópa var það sama uppá teningnum, enga marktæka fylgni var þar að finna.

Þó þetta hafi ekki verið sú niðurstaða sem hópurinn lagði upp með að finna má segja að þessi rannsókn hafi samt svarað gríðarlega mikilvægum spurningum. Til dæmis hvort er vænlegra til árangurs að minnka fitu eða minnka kolvetni í fæðu sinni, en svo virðist sem hvoru tveggja skili tilskildum áhrifum.

Getur verið að sama gamla klisjan sé einfaldlega sönn, til að grennast þarf bara að minnka orkuinntöku og auka orkunotkun? Jú sannarlega er það lykillinn á bak við þetta allt saman. Þó setningin hljómi einföld þá virðist ekki alltaf svo einfalt að fylgja henni.

Ástæðan gæti auðvitað legið í öðrum þáttum sem rannsóknarhópurinn reynir nú að grúska í. Má þar nefna utangenaerfðir, tjáningarmynstur gena sem tengjast efnaskiptum og hina margrómuðu örveruflóru meltingarvegarins.

Með tíð og tíma munum við mögulega sjá persónulegri leiðbeiningar um lífsstílsbreytingar. Þangað til er kannski best að hlusta á eigin líkama og nýta sér það sem hentar manni best hverju sinni, líka ef að það sem hentar best er að vera ekki í megrun.