Tanning_bed_in_use

Tíð notkun ljósabekkja er vonandi á undanhaldi eftir sterk tengsl þeirra við myndun húðkrabbameina komst í hámæli. Virkni ljósabekkjanna byggir á útfjólubláu ljósi sem örvar tjáningu á litarefnum í húð, og gerir okkur brún. Þessi tjáning á litarefnum er í raun varnarviðbragð líkamans við útfjólubláu ljósi, vegna þess að útfjólublátt ljós framkallar stökkbreytingar í erfðaefninu. Stökkbreytingar geta svo leitt til krabbameina og þaðan kemur tenging ljósabekkja við húðkrabbamein.

Nú hafa vísindamenn við University of Colorado Cancer Center sent frá sér yfirlýsingu sem birtist í American Journal of Preventive Medicine þar sem listaðar eru ástæður þess að ljósabekkir ættu að fá sömu meðhöndlun og tóbak hvað varðar forvarnir gegn notkun.

Ástæðurnar sem taldar eru upp eru eftirfarandi:

1. Sterk fylgni er milli notkunar ljósabekkja og húðkrabbameina. Fólk sem hefur notað ljósabekki er u.þ.b. 16% líklegra til að fá krabbamein en aðrir.

2. Fylgnin er ekki bara til staðar í ákveðnum hópum heldur á hún alltaf við, sem gefur til kynna að áhrif ljósabekkjanotkunar eru sterk.

3. Ljósabekkjanotkun er augljós sökudólgur og auðvelt að finna hann þar sem afleiðing notkunarinnar er frekar sértæk, húðkrabbamein.

4. Í þessu tilfelli er fylgnin milli ljósabekkjanotkunar og húðkrabbameina orsakasamhengi, þar sem ljósabekkjanotkunin kemur alltaf á undan húðkrabbameininu, ekki öfugt. Það er því ekki hægt að halda því fram að fólk sem er líklegra til að fá húðkrabbamein fari oftar í ljós, af annari ástæðu sem ekki er þekkt.

5. Það er ákveðinn líffræðilegur stigull í áhættunni, því meiri sem notkun ljósabekkja er því meiri líkur er á húðkrabbameini.

6. Áhrif útfjólublás ljós á erfðaefnið er nú þegar þekkt, og hefur verið lengi, svo það er augljós skýring á því hvers vegna ljósabekkjanotkun eykur líkur á krabbameini.

7. Rannsóknir sem gerðar hafa verið á tenglsum húðkrabbameins og ljósabekkjanotkunar eru samsvarandi.

8. Mörgum vísindahópum hefur tekist að framkalla húðkrabbamein í tilraunadýrum með því að meðhöndla þau með útfjólubláu ljósi, svipað og verist í ljósabekk.

9. Hliðstæð tilfelli eru þekkt hjá fólki sem brennur auðveldlega, en þau eru einnig í aukinni áhættu að fá húðkrabbamein, vegna þess að þau verða fyrir meira áreiti af útfjólubláu ljósi.

Svo þar hafið þið það, notkun ljósabekkja getur ærlega komið í bakið á manni seinna á lífsleiðinni, svo heppilegast er að forðast þá.

Hér má lesa fréttatilkynningu University of Colorado Cancer Center um málið.