helmet

Á Íslandi notar langflest hjólreiðafólk hjálma til að vernda höfuð sitt gegn skaða lendi þau í slysi. Það er ekki að ástæðulausu því höfuðáverkar geta haft alvarlegar afleiðingar. Reiðhjólahjálmurinn kemur þó ekki algjörlega í veg fyrir heilahristing þó hann dragi vissulega úr afleiðingum hjólaslysa. Rannsóknarhópur við Stanford University vinnur þess vegna að nýrri lausn sem á að vernda höfuð hjólreiðafólks.

Þessi nýja lausn er nokkurs konar loftpúðatrefill ef svo má að orði komast. Í stað þess að vera með hjálm er viðkomandi með loftpúða um hálsinn sem springa út þegar slys á sér stað. Þá mynda loftpúðarnir hjúp utan um höfuð þess sem ber trefilinn og verndar það frá höggi þegar viðkomandi dettur af hjólinu.

Þegar hjálmurinn var prófaður samhliða venjulegum hjálmi á dúkku kom í ljós að loftpúðarnir veita allt að sexfalt meiri vörn en hefðbundinn hjálmur. Einn hængur er þó á, þar sem prófin eru hönnuð fyrir venjulega hjálma var ekki hægt að prófa hjálminn óuppblásinn. Þess vegna voru allar tilraunirnar framkvæmdar með eins mikinn þrýsting í loftpúðunum og mögulegt var. Þó er þekkt staðreynd að við slys nær þrýstingurinn í loftpúðunum ekki alltaf alveg hámarkinu, sem getur valdið áverkum hjá einstaklingum sem treysta loftpúðana.

Frekari prófanir og rannsóknir fara nú fram hjá rannsóknarhópnum en takist þeim að bæta hjálminn má gera ráð fyrir að sjá hann fljótlega í reiðhjólabúðum og jafnvel tengdan fleiri tómstundum þar sem nauðsynlegt er að verja höfuðið.