druf abuse in sports

Notkun ólöglegra efna í þeim tilgangi að ná lengra í íþróttum hefur verið þekkt síðan í kringum 1967. Tilgangur lyfjanna er að auka hæfileika iþróttamannsins svo hann/hún hlaupi hraðar, kasti lengra eða hoppi hærra. Því miður telja sumir notkun þessara lyfja nauðsynlega til að ná langt í íþróttum og mætti þá jafnvel kenna utanaðkomandi þrýstingi að hluta til um notkunina.

En ef marka má niðurstöður rannsóknar sem birt var í Journal of Human Sport and Exercise á dögunum auka lyfin ekki árangur í íþróttum. Lyfjanotkun skaðar því ekki aðeins ímynd íþrótta og íþróttamanna heldur skilar hún ekki tilætluðum árangri og fer illa með líkama þeirra sem hana stunda.

Í rannsókninni, sem unnin var við University of Adelaide, var árangur íþróttamanna í 26 íþróttagreinum fyrir og eftir 1932 var borinn saman. Árið 1932 varð fyrir valinu vegna þess að þá komu sterar fyrst á markað. Einnig var skoðaður munur á árangri íþróttamanna í sömu 26 greinum fyrir og eftir 1967, en þá var lyfjanotkun í íþróttum viðurkennd.

Að meðaltali var árangur íþróttamanna á lyfjum ekki betri en árangur þeirra sem ekki notuðu lyf. Jafnvel þó gert væri ráð fyrir að færri lyfjatilfelli greindust en raunverulega væru til staðar þá virtist árangurinn ekki vera að aukast.

Höfundar greinarinnar vonast til að niðurstöður hennar verði til þess að lyfjanotkun í íþróttum minnki, en notkun lyfja getur reynst skaðleg fyrir einstaklingana sem þeirra neyta og að auki hefur lyfjanotkun neikvæð áhrif á ímynd íþrótta. Sennilega verða þeir sem telja sig þurfa á lyfjum að halda að sætta sig við að þeir eru einfaldlega ekki bestir og lyfjanotkun breytir þar litlu. Hér má lesa fréttatilkynningu University of Adelaide.